Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Loftferðasamningur við Úkraínu undirritaður

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra og Dmytro Kuleba, utanríkisráðherra Úkraínu undirrituðu loftferðasamning milli ríkjanna í dag.

Ráðherrarnir skrifuðu undir samninginn í Stokkhólmi en þetta er fyrsti milliríkjasamningurinn sem Þórdís Kolbrún undirritar eftir að hún tók við embætti og fyrsti loftferðasamningur ríkjanna. 

Samningurinn nær til áætlunarflugs milli ríkjanna án takmarkana á fjölda áfangastaða, farþegafjölda eða ferðatíðni. Jafnframt nær hann til flugs til viðkomustaða handan áfangastaða á Íslandi og í Úkraínu.

Þórdís er stödd á ráðherrafundi Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu en hún segir að þrátt fyrir þurft hafi að aðlaga sig að breyttum aðstæðum í heimsfaraldri sé horft til hagsmuna flugrekenda við gerð samninga sem þessa. 

„Loftferðasamningar eru meðal þeirra mikilvægu viðskiptasamninga sem tryggja flutninga til og frá Íslandi, auk þess að greiða aðgang íslenskra flugrekenda að alþjóðamörkuðum,“ segir Þórdís Kolbrún.