Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Keflvíkingar sitja einir á toppnum eftir kvöldið

Mynd með færslu
 Mynd: Mummi Lú

Keflvíkingar sitja einir á toppnum eftir kvöldið

03.12.2021 - 22:01
Fjórir leikir fóru fram í kvöld í Subwaydeild karla í körfubolta. Keflavík situr eitt á toppnum eftir sigur á KR í Frostaskjóli, 108-88. Þór Þorlákshöfn tapaði á sama tíma gegn Val, 86-75.

Það var mikið fjör í fyrri hálfleik í Frostaskjóli í kvöld og var mikið skorað. Að loknum fyrri hálfleiknum stóð 55-50 fyrir Keflavík. Keflvíkingar voru enn með forystuna eftir þrjá leikhluta og enn voru þeir yfir þegar leiknum lauk, 108-88, sem var mesta forysta leiksins. Keflavík er með 14 stig í efst sæti en KR er með 8.

Þór Þorlákshöfn var í efsta sæti með Keflavík fyrir kvöldið en Þórsarar biðu lægri hlut gegn Val í kvöld, 86-75. Valur fór upp fyrir KR með sigrinum. Valur er með 10 stig í 6. sæti en KR féll í það 7. 

Tindastóll jafnaði við Þór að stigum með sigri á ÍR fyrir norðan, 98-77. Bæði lið eru með 12 stig. ÍR er áfram í 9. sæti með 4 stig eins og Vestri sem tapaði gegn Njarðvík í kvöld. Njarðvík vann með 98 stigum gegn 69. Njarðvík er með 10 stig eins og Valur og Grindavík, sem á leik til góða. Haukur Helgi Pálsson, landsliðsmaður, lék fyrsta leik sinn með Njarðvík í vetur, en hann hefur verið meiddur lengi. Hann lék 17 mínútur og skoraði 2 stig, en ánægjulegt fyrir Njarðvíkinga, og landsliðið, að Haukur Helgi sé kominn aftur á völlinn.

Lokaleikir umferðarinnar eru á morgun þegar Grindavík mætir Stjörnunni og Breiðablik tekur á móti Þór Akureyri í fallslag en Breiðablik er í næstneðsta sæti með 2 stig en Þórsarar á botninum án stiga.