Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Hátíð endurtekningarinnar í tímans straumi

Mynd: Þjóðleikhúsið / Þjóðleikhúsið

Hátíð endurtekningarinnar í tímans straumi

03.12.2021 - 13:30

Höfundar

Jólaboðið í Þjóðleikhúsinu kitlar vel hláturtaugarnar en ýmsir hlutir reyna á trúverðugleika, segir Snæbjörn Brynjarsson gagnrýnandi um Jólaboðið.

Snæbjörn Brynjarsson skrifar:

Hátíð fer að höndum ein hana vér allir prýðum. Jólaboðið nefnist nýtt íslenskt leikrit eftir Gísla Örn Garðarsson og Melkorku Teklu Ólafsdóttur sem sýnt er kassanum í Þjóðleikhúsinu um þessar mundir, en Gísli Örn er einnig leikstjóri verksins. Leikritið er kynslóðasaga, sem er töluverð áskorun að skrifa, því þarna þarf að segja á fullnægjandi hátt sögu margra ólíkra einstaklinga og passa að fanga tíðarandann um leið. Hugmyndin að verkinu er býsna góð, í stuttu máli sagt fylgjast áhorfendur með íslenskri efristéttar fjölskyldu halda saman jól við upphaf fyrri heimsstyrjaldar, og síðan sjáum við tímann líða í örstuttum senum sem standa fyrir heilu árin eða jafnvel áratugina allt til nútímans. Í millitíðinni deyja sumir og aðrir fæðast þannig að flestir í leikhópnum ná að leika fleiri en eina persónu og á fleiri aldursstigum. Aldurinn verður í raun frekar afstæður því stundum eru yngstu leikararnir farnir að túlka elstu persónurnar og sömuleiðis elstu leikararnir komnir í hlutverk barna eða unglinga. Úr þessu leysir Gísli Örn á nokkuð sniðugan hátt. Sér í lagi eru andlátssenurnar vel leystar, en fæðingarnar verða eilítið flóknari.

Miðpunkturinn í þessu öllu saman er svo jólahaldið, en allar senurnar gerast á jólunum. Það er tíminn sem öll fjölskyldan situr saman og gleðst, eða ýfir upp gömul sár, en sýningin er þó ekki eiginleg jólasýning heldur frekar gamansamt fjölskyldudrama.

Í upphafi kynnumst við útgerðarmanninum Óskari, sem hefur stofnað togaraútgerð í Reykjavík. Óskar er ekki ólíkur Thor Jensen, það er að segja margt í tímalínunni og ævisögu þeirra rímar ágætlega saman. Thor Jensen kom til Íslands á unglingsaldri eignalaus, en tókst að efnast með kaupmennsku og stofnaði loks útgerðarfélag árið 1912. Óskar, sem leikinn er af Guðjóni Davíð Karlssyni, á að hafa brotist úr fátækt, gerst kaupmaður, stofnað togaraútgerð fyrir árið 1914 og reist sér glæsilegt og nýtískulegt hús í hinni verðandi höfuðborg. Þó svo þetta sé að mörgu leyti líkt ævi Thors Jensens enda líkindin hér, milli hinnar skálduðu ættarsögu Melkorku og Gísla og Thorsaranna, því að eftir þetta herðist róðurinn töluvert fyrir ættina.

Óskar ráðskast með bæði eiginkonu sína Jóhönnu, sem leikin er af Ólafíu Hrönn Jónsdóttur, og einkason sinn Davíð sem túlkaður er af Gunnari S. Jóhannessyni. Ættfaðirinn velur nöfn barnabarna sinna, sem honum til mikilla vonbrigða reynast vera eintóm stúlkubörn, og stjórnar borðhaldinu um jólin, en leyfir syni sínum að taka við útgerðinni og lætur sér duga að kvarta undan vinnubrögðum hans við matarborðið.

Í sýningunni er mjög sterk feminísk slagsíða. Eftir að ættmóðirin Jóhanna deyr tekur tengdadóttirin Sigrún við að þjóna öllum til borðs og undirbúa jólin. Sigrún, sem leikin er af Ragnheiði K. Steindórsdóttur, er ekki jafn hörð af sér. Hún þjáist af þunglyndi eftir að hafa fætt andvana barn og fær ekki þann stuðning sem hún þarf, hvorki tilfinningalega né verklega. Dætur hennar átta sig þó ekki á því fyrr en síðar að þær þekktu hana ekki í raun og veru. Þær eru ólíkar, Guðmundína eða Munda, leikin af Ebbu Katrínu Finnsdóttur og Margrét leikin af Nínu Dögg Filippusdóttur. Margrét kemst í kynni við amerískan hermann sem endar illa, og er drusluskömmuð af yngri systur sinni.

Það hefur mótandi áhrif á hana og hún verður fyrir vikið róttækari og opnari en aðrir í ættinni, og endar á því að gera uppreisn gegn feðraveldinu, sem setti hana í skammarkrókinn. Hér er auðvitað bókstaflega átt við feðraveldi því að kúgararnir eru allir feður, þar með talinn Ragnar, tengdasonurinn frá Bíldudal. Það hefur væntanlega aldrei komið annað til greina en að Þröstur Leó Gunnarsson færi með hlutverk Bílddælingsins sem brennur fyrir viðskiptum og nýjungum en fær aldrei færi á að sanna sig fyrr en eftir að íhaldssamt fjölskyldufyrirtækið er komið í þrot og ættin næstum því búin að missa húsið. Eftir fall útgerðarinnar breytist margt og ferskari vindar blása. Uppreisn sextíu-kynslóðarinnar holdgerist í dótturinni Jóhönnu, sem einnig er leikin af Ólafíu Hrönn, og barnsföður hennar Bárði sem er leikin af Guðjóni Karli, sem er alger andstæða útgerðarjöfursins sem hann túlkaði í upphafi verksins.

Það er engin þörf á að rekja þessu sögu meira, nema bara til að nefna eina leikarann sem ég átti eftir að koma að í þessari upptalningu en Baldur Trausti Hreinsson fer með hlutverk bandaríska hermannsins sem Margrét fellur fyrir og túlkar síðan systurson hennar, Óskar yngri. Fleiri persónur bætast við áður en nútímanum er náð og Helga I. Stefánsdóttir, búningahönnuður sýningarinnar stendur sig ágætlega við að túlka. Sú persóna sem er lengst allra á sviðinu, nærri frá upphafi til enda er Margrét sem fyrir vikið verður eiginlega aðalsöguhetja verksins, en þó mætti segja að hin raunverulega aðalsöguhetja sé húsið sjálft. Maður finnur vel fyrir sögulegum þunga í einfaldri og dökkri sviðsmynd Barkar Jónssonar. Langur gluggi í bakgrunni skiptir litum og sýnir veðrabreytingar, en steintröppurnar haldast óbreyttar út sýninguna og þjóna ýmsum tilgangi. Þær gefa skemmtilegan effekt í upphafi meðan maður er enn að átta sig á fjarvíddinni, en gefa manni ágætis tilfinningu fyrir veglegu og virðulegu húsi.

Eins og áður sagði eru jólin rauði þráður sýningarinnar. Jólin eru auðvitað ekki bara neysluhátíð. Löngu áður en við höfðum eitthvað í líkingu við nútíma kapítalisma, jafnvel löngu fyrir fæðingu frelsarans, voru einhverjir forngermanskir ættbálkar á gresjum Rússlands eða Úkraínu að skála í öli og halda upp á vetrarsólstöðurnar. Jólin eru ævaforn hefð sem við gerum okkar besta við að halda í, jólin eru hátíð endurtekningarinnar ekki nýjunga. Fjölskyldan kemur saman og borðar sama mat og síðast, helst á sama tíma og með sömu útvarpsmessuna í bakgrunninum eða sömu tónlist eða sömu þögn, áður en kóreógrafían færist í átt að jólatrénu og pökkunum undir því. En þrátt fyrir löngun foreldra til að endurupplifa jól æsku sinnar í gegnum börnin og viðhalda hefðinni, þá stökkbreytist hún samt sem áður og verður að einhverju nýju. Hamborgarhryggur tekur við af kjötsúpu og er síðan rutt í burtu af hnetusteikinni. Rjúpur umbreytast úr fátækra mati í dýrindis gúrmet máltíð og möndlugrautar koma fram á sjónarsviðið um leið og kóngakerti víkja fyrir amerískum rafmagnsljósum.

Það er ánægjulegt að sjá ólíka tíma túlkaða í Jólaboðinu og fylgjast með uppbrotinu þegar hátíð endurtekningarinnar mætir umbreytingaröflum samfélagsins. Það heppnast ekki alltaf vel, Bárður verður til dæmis allt of ýktur til að vera trúverðugur fulltrúi sextíu-kynslóðarinnar. Sér í lagi hljómar Kambódíu-sagan ólíklega, og ýmsir aðrir hlutir reyna á trúverðugleika frásagnarinnar, aðallega þó þegar nær dregur nútímanum. Stundum er of mikið reynt til þess að kreista fram hlátur og persónur verða að flötum steríótýpum og skopstælingum. Að því sögðu er Jólaboðið mjög vel heppnuð sjónrænt, Gísli hefur alltaf gott auga fyrir kóreógrafíu og yfirleitt mjög frumlega myndræna framsetningu og Jólaboðið er engin undantekning þar á. Ég átti erfitt með hvernig leikararnir túlkuðu ung börn en þar gildir reglan að minna verður oft meira. Að öðru leyti standa allir sig mjög vel, sér í lagi eru Baldur Trausti Hreinsson og Nína Dögg sterk í sínum hlutverkum.

Jólaboðið á sínar hæðir og lægðir, en kitlar vel hláturtaugar áhorfenda og tekst að segja frá 20. öldinni á dramatískan og hjartnæman hátt.

Tengdar fréttir

Leiklist

Rauðar kápur og talandi ljón

Leiklist

Engin Sirkús-Njála

Leiklist

Hrá, ljóðræn og býsna mögnuð danssýning

Leiklist

Vel skrifuð tragikómedía sem dregst á langinn