Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Frjálslyndi Hollendinga kennt um útbreiðslu COVID-19

epa09610903 Musical duo Nick and Simon perform at the Sky Radio Christmas tram in the center of Amsterdam, the Netherlands, 29 November 2021. The tram is a tradition around the holidays, offering travelers non-stop Christmas hits in a decorated environment.  EPA-EFE/Ramon van Flymen
 Mynd: EPA-EFE - ANP
Holland er eitt þeirra landa sem hvað verst hefur orðið úti í kórónuveirufaraldrinum. Sérfræðingar telja að ástæður þess megi rekja til ríkrar hefðar fyrir einstaklingsfrelsi og samfélagsábyrgð í landinu.

Nokkurskonar óritaður samfélagssáttmáli þess efnis ríkir milli stjórnvalda og borgara landsins. Um það bil 85 af hundraði Hollendinga eru bólusettir en grímuskylda er iðulega látin lönd og leið ásamt því að bólusetningarvottorð eru sjaldan skoðuð á opinberum stöðum.

Stjórnvöld veigra sér jafnframt við að framfylgja sóttvarnarreglum af hörku. Í upphafi faraldursins greip ríkisstjórn Mark Rutte til aðgerða sem voru mildari en víðast í Evrópu og almenningur fór eftir þeim reglum sem þá voru settar.

Heldur hefur sigið á ógæfuhliðina síðan þá, vinsældir ríkisstjórnarinnar hafa dalað og smitum heldur áfram að fjölga. Stjórninni er legið á hálsi fyrir óstöðuglyndi, ýmist er hert á reglum eða slakað á og svo hert aftur.

Nýlega greindust 20 þúsund ný smit á dag í landi sem telur 17 milljónir íbúa og í síðustu viku var nýgengi það fjórða hæsta í Evrópu. Gjörgæsludeildir ráða ekki við álagið og herinn hefur verið kallaður til aðstoðar.

Eins hafa Hollendingar andæft af meiri hörku en þeir hafa lengi gert en ofbeldisfull mótmæli brutust út víða um land í nóvember eftir að stjórnvöld gripu til mjög hertra aðgerða vegna aukinnar útbreiðslu veirunnar.

Frits Rosendaal farsóttarfræðingur við háskólann í Leiden fullyrðir í samtali við AFP-fréttaveituna að Hollendingar hafi megnustu andúð á ströngum reglum og fólki sem reyni að framfylgja þeim af hörku.

Það sé í eðli Hollendinga sem þyki afar vænt um persónulegt sjálfstæði sitt.  Hollensk stjórnvöld treysta mjög á bólusetningaráætlun sína en vitað er að bólusetning veitir ekki algera vernd gegn smiti.

Aura Timen smitsjúkdómasérfræðingur segir fleira hafa áhrif á útbreiðslu veirunnar í Hollandi, smitnæmi Delta-afbrigðisins, þéttbýli og fjölgun smita að vetrarlagi.

Timen kveðst telja að hertar reglur haldi aftur af útbreiðslu omíkron-afbrigðis og vonar að Hollendingar fari áfram að reglunum. Það sé eina leiðin til að þær beri árangur en eftir að reglur voru hertar dró verulega úr fjölgun smita í samanburði við vikurnar á undan.