Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Bílastæðavandinn

03.12.2021 - 14:52
Mynd:  / 
Stefán Gíslason flutti pistil í Samfélagið á Rás 1 um hinn svokallaða bílastæðavanda.

 

Stefán Gíslason flytur pistilinn:

Kannast hlustendur við orðið ‚bílastæðavandi‘ (‚bílastæðavandi‘) og þá í hvaða merkingu? Þessa spurningu hefði Jón Aðalsteinn Jónsson getað lagt fyrir hlustendur útvarpsþáttarins „Íslenzkt mál“, sem var einn af föstu punktunum í tilverunni þegar ég var að alast upp á síðari hluta síðustu aldar. Reyndar var þessi spurning aldrei borin upp í þáttunum, enda fjölluðu þeir aðallega um orðanotkun í fortíðinni og í þeirri tíð var enginn bílastæðavandi. Ég hef ekki kannað sögu orðsins, en mér er nær að halda að það hafi varla heyrst mikið fyrr en undir lok aldarinnar.

Hvað segir Google?

Þegar talað er um bílastæðavanda dettur sjálfsagt flestum í hug skortur á bílastæðum. Lausleg rannsókn sem Google hjálpaði mér að gera í gærkvöldi studdi þessa tilgátu. Í fljótu bragði fann Google 5.300 dæmi um þetta orð á netinu og í öllum þeim tilvikum sem ég náði að skoða virtist orðið vera notað til að lýsa skorti. En þegar betur er að gáð, gæti sem best verið að hinn raunverulegi bílastæðavandi felist í því að bílastæðin séu of mörg en ekki of fá.

Þarf ég 4 eða 5 bílastæði!?

Þegar maður hugsar um bílastæði verður manni líklega fyrst á að hugsa um bílastæðin fyrir utan húsið sem maður býr í. Þar vill maður jú alla vega hafa eins og eitt stæði fyrir bílinn sinn, já og jafnvel fleiri ef maður á fleiri bíla. En einhvern veginn lætur maður sér þetta ekki nægja, heldur vill maður líka geta lagt bílnum fyrir utan leikskólann eða skólann þegar maður er að skutla börnunum eða barnabörnunum – og stæðið fyrir utan húsið manns stendur líklega autt á meðan. Og stæðið fyrir utan húsið manns er ennþá autt skömmu síðar þegar maður leggur bílnum sínum í stæðið sem maður vill að bíði fyrir utan vinnustaðinn. Seinni part dagsins standa líklega öll þessi stæði auð þegar maður leggur í stæðið sem maður vill að bíði manns fyrir utan búðina þar sem maður kaupir í kvöldmatinn. Og um kvöldið fer maður kannski í bíó eða í leikhús og þar vill maður hafa enn eitt stæðið til reiðu á meðan hin standa auð.

Þarna er ég búinn að telja upp fimm bílastæði sem maður vill helst öll hafa til reiðu fyrir þennan eina bíl. Og í sjálfu sér væri hægt að nefna fleiri staði þar sem manni finnst að bílastæðin eigi að bíða manns þolinmóð daginn út og inn – og auðvitað á nóttunni líka, því að stæðin fara ekki neitt.

Nú kann einhverjum að finnast það fjarri lagi að til séu fimm bílastæði, já, eða segjum bara fjögur bílastæði, fyrir hvern einasta bíl. Maður fái jú alls ekki stæði hvar og hvenær sem er, enda taki flest þessara stæða við miklu fleiri bílum á hverjum degi en bara þessum eina. En tilfellið er að þessi fjögur stæði eru ekki mjög fjarri lagi. Í rannsókn sem oft er vísað til og gerð var við Berkely háskólann í Kaliforníu fyrir rúmum áratug, kom í ljós að í Bandaríkjunum voru þá á að giska 3,4 stæði fyrir hvern einasta bíl. Aðrar heimildir þar vestra segja að stæðin séu fleiri, jafnvel allt upp í 8 stykki, en mér skilst að almennt geri bandarísk viðmið ráð fyrir fjórum stæðum á hvern bíl.

Auðvitað er Ísland ekki Ameríka. Mér hefur ekki tekist að grafa upp nákvæmar bílastæðatölur úr íslenskum þéttbýlisveruleika, en Hrafnkell Proppé skipulagsfræðingur benti mér á könnun sem gerð var í Reykjavík árið 2013 og benti til að þar í borg væru að jafnaði 3-5 bílastæði á hvern bíl, misjafnt eftir hverfum. Þegar allt kemur til alls virðist talan 4 sem sagt ekki vera fjarri lagi.

Bílastæði taka pláss

Ef við veltum nú aðeins fyrir okkur plássinu sem þarf undir öll þessi bílastæði, þá er hvert stæði að lágmarki u.þ.b. 15 m2, en allt upp í 25 m2 með öllu sem fylgir. Ef við förum milliveginn og reiknum með 20 m2, þá eru þetta 4x20 = 80 m2 fyrir hvern einasta bíl. Á Íslandi eru samtals um 300 þúsund bílar, sem þýðir þá samkvæmt þessu að samanlagt flatarmál bílastæða hérlendis gæti verið um 24 milljónir fermetra. Það pláss gæti dugað undir á að giska 2.400 fótboltavelli eða 240.000 sæmilegar íbúðir.

Nú er eðlilegt að spurt sé hvort þetta skipti einhverju máli, því að á Íslandi sé til nóg af landi. Þá spurningu má skoða frá ýmsum hliðum. Það lætur t.d. nærri að á hverju ári fjölgi bílunum um 3.000 stykki eða þar um bil, sem þýðir þá, með sömu reikniaðferðum og áður, að á hverju ári eru 240.000 fermetrar, 24 fótboltavellir eða 2.400 íbúðarými tekin undir bílastæði. Ef maður gerir ráð fyrir að svipuð þróun haldist næstu áratugi, gæti svo farið að einhvers staðar fari að þrengjast um jarðnæði.

Þáttur bílastæða í loftslagsvánni

En svo eru auðvitað fleiri hliðar á þessu. Land breytist nefnilega yfirleitt ekki sjálfkrafa í bílastæði. Oftast þarf að skipta um jarðveg á svæðinu, því fylgja heilmiklir efnisflutningar og stundum er miklu magni af mold mokað upp og sett einhvers staðar í haug. Mold er að talsverðu leyti kolefni og ef súrefni andrúmsloftsins nær að leika um moldina breytist kolefnið smátt og smátt í koldíoxíð sem streymir út í andrúmsloftið. Og þar með erum við farin að auka á loftslagsvána. Þar við bætist svo olían sem er notuð í alla þessa flutninga – og svo þarf líka slatta af malbiki eða steypu sem stækkar kolefnisspor bílastæðanna enn frekar. Þegar malbik eða steypa er lögð yfir náttúrulegt yfirborð lands breytist líka vatnsbúskapurinn, nema helst ef vatnið nær að hripa í gegnum yfirborðið.

Hvert er vandamálið?

Af þessari stuttu yfirferð ætti að vera ljóst að bílastæði eru ekki bara bílastæði. Land sem er tekið undir bílastæði verður varla notað í annað í náinni framtíð, hvorki í okkar þágu né náttúrunnar, og öllum þessum stæðum fylgja margvísleg áhrif á umhverfið. Þessi áhrif bætast ofan á þau áhrif sem bílarnir hafa sjálfir – og þegar þarna er komið sögu eru jafnvel rafbílar ekkert betri en aðrir bílar. Með öðrum orðum duga orkuskipti ekki ein og sér til að útrýma þeim neikvæðu áhrifum sem bílaumferð hefur á umhverfið. En það vill svo vel til að aðrar lausnir eru tiltækar, sérstaklega í þéttbýli. Meðal þessara lausna eru greiðari almenningssamgöngur og betri innviðir fyrir fólk sem vill nota annan ferðamáta en bílinn til að fara á milli staða.

Það er sem sagt ekkert náttúrulögmál að við þurfum að fjölga bílunum okkar um 3.000 á hverju ári og búa til 12.000 ný bílastæði. Líklega kannast flestir hlustendur við orðið „bílastæðavandi“ en eftir stendur spurningin: „Í hvaða merkingu“?

 

thorhildurg's picture
Þórhildur Guðrún Ólafsdóttir
dagskrárgerðarmaður