Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Álasað fyrir endurupptöku stefnu varðandi flóttafólk

epa09617455 US President Joe Biden delivers remarks after receiving a briefing from his COVID Response Team and NIH health officials, including NIAID Director and Chief Medical Advisor to the President Dr. Anthony Fauci at the National Institutes of Health (NIH) in Bethesda, Maryland, USA, on 02 December 2021.  EPA-EFE/Oliver Contreras / POOL
 Mynd: EPA-EFE - SIPA USA POOL
Joe Biden Bandaríkjaforseti liggur nú undir þungu ámæli eftir að hann ákvað að endurlífga þá stefnu forvera síns að hælisleitendum skuli gert að bíða í Mexíkó meðan unnið er úr umsóknum þeirra.

Sú ákvörðun forsetans byggir á niðurstöðu alríkisdómara um lögmæti stefnu í málefnum flóttafólks sem ákveðin var í stjórnartíð Donald Trumps. Breska ríkisútvarpið fjallar um málið á vef sínum. 

Fullyrt er að sú ráðstöfun að safna fólki saman í  auki á glæpi og ofbeldi í búðum flóttamanna við landamærin. Biden afnam reglurnar nánast umsvifalaust og hann tók við embætti og sagði þær ómannúðlegar.

Alríkisdómari úrskurðaði í ágúst að stjórnvöldum Bandaríkjanna og Mexíkó beri að viðhalda stefnunni og það hafa bæði ríki ákveðið að gera frá og með næstu viku.

Auk þess er viðhaldið heimild til að vísa hælisleitendum á bug af lýðheilsuástæðum og bætt við ákvæði þess efnis að hver hælisleitandi þurfi ekki að bíða lengur en hálft ár eftir niðurstöðu umsóknar. Það var gert að kröfu Mexíkóstjórnar.

Bandaríkjastjórn hefur áfrýjað niðurstöðu alríkisdómstólsins. Yfir 60 þúsund hælisleitendum var vísað frá Bandaríkjunum eftir að áætlunin tók gildi og mannréttindasamtök hafa síðan greint frá alvarlegum brotum gegn hælisleitendum við landamærin.

Jen Psaki blaðafulltrúi Hvíta hússins segir Biden standa við orð sín um vægðarleysi áætlunarinnar en áréttaði að ríkisstjórninni bæri að fara að lögum.