Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Tvö staðfest omíkron smit til viðbótar

02.12.2021 - 14:19
Mynd með færslu
 Mynd: Bragi Valgeirsson - RÚV
Þrjú omíkron-smit hafa greinst á Íslandi. Eitt greindist í gær og tvö eftir hádegi í dag eftir að sýni gærdagsins höfðu verið raðgreind. Þetta staðfestir Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar. Smitin eru talin tengjast.

Karlmaður á áttræðisaldri greindist fyrst með omíkron-afbrigði veirunnar í gær. Hann liggur á landspítala en hafði fyrir það verið á heilbrigðisstofnun utan höfuðborgarsvæðisins vegna Covid-veikinda. Hann er fullbólusettur með örvunarskammt að því er segir í tilkynningu frá farsóttarnefnd spítalans. Uppruni smitsins er enn óljós.

Kári segir að vinnulagi við raðgreiningar hafi verið breytt. Síðan faraldurinn hófst hefur Íslensk erfðagreining raðgreint öll jákvæð sýni, en á meðan delta-afbrigðið var ráðandi var sýnum safnað saman í nokkra daga áður en þau voru raðgreind. „Nú raðgreinum við á hverjum degi. Til að fylgjast með því hvernig þetta afbrigði dreifir sér í íslensku samfélagi,“ segir Kári.

Omíkron er meira stökkbreytt en önnur afbrigði kórónuveirunnar. Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir sagði í hádegisfréttum að það væri verið að skoða veikindi í kringum þann sem greindist með omíkron-afbrigðið í gær. Hann sagði að margt benti til þess að afbrigðið væri meira smitandi en önnur en mikilvægt væri að hafa í huga að engar vísbendingar séu um að omíkron valdi meiri skaða en önnur afbrigði veirunnar.

Fréttin hefur verið uppfærð með upplýsingum frá Landspítala.

holmfridurdf's picture
Hólmfríður Dagný Friðjónsdóttir
Fréttastofa RÚV