Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Tífalt rennsli og grannt fylgst með skjálftavirkni

Mynd með færslu
 Mynd: Njáll Fannar Reynisson - Veðurstofan
Rafleiðni og rennsli í Gígjukvísl fer vaxandi en búist er við að hlaup úr Grímsvötnum nái hámarki á sunnudag. Rennsli í Gígjukvísl er nú tífalt miðað við árstíma. Samkvæmt mælingum Veðurstofunnar eru aðstæður með þeim hætti að Grímsvötn eru tilbúin að gjósa. Grannt verður því fylgst með skjálftavirkni á svæðinu sem líklega yrði fyrirboði eldgoss.

Rennsli þrefaldast

Rennsli í ánni hefur þrefaldast á síðustu þremur dögum og mældist fyrir hádegi 930 rúmmetrar á sekúndu. Búist er við að rennslið fjórfaldist um helgina. Nýjustu mælingar sýna að íshellan í vötnunum hefur sigið um rúma 17 metra frá því hún tók að síga fyrir níu dögum síðan. 

Það hefur verið töluvert ísrek í Gígjukvísl en áin ekki komin út fyrir farveginn. Rafleiðni í ánni tók mikinn kipp í nótt og í morgun. Hún mælist nú rúmlega 272 míkrósímens á sentimetra, en verður allavega tvöfalt meiri þegar hlaupið nær hámarki.

Stórt lón hefur myndast við jökuljaðarinn, þar sem vatnið kemur undan jökli, og því hafi áhrifa hlaups í ánni ekki orðið vart að ráði fyrr en í gær. Nú sé lónið orðið mettað af hlaupvatni og farið að skila sér neðar í ána.

Gaus þremur dögum eftir upphaf hlaups

Dæmi eru um að gjósi úr Grímsvötnum þegar hleypur þaðan og létt er á þrýstingi í öskjunni. Síðast varð slík atburðarás árið 2004 þegar hlaup hófst í lok október og gos hófst þremur dögum síðar.

Dagana á undan var skjálftahrina í Grímsvötnum til marks um að eldgos væri í vændum, en engir slíkir skjálftar hafa mælst núna. Síðast gaus úr Grímsvötnum 2011 en þá hafði hlaupið úr vötnunum sex mánuðum fyrr. Alls hefur hlaupið sex sinnum úr Grímsvötnum síðan þá án þess að eldgos fylgi í kjölfarið.

Gosið hefur úr Grímsvötnum á fimm til tíu ára fresti og vísindamönnum kemur saman um að aðstæður nú benda til þess að gosið gæti úr vötnunum og þarf því að fylgjast grannt með skjálfta virkni, sem gæti gefið vísbendingar um hvort gos sé yfirvofandi. Ekki er þó hægt að fullyrða að eldgos verði samfara þessu hlaupi.