Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Skólastarf raskast vegna fjölda smita á Austurlandi

Mynd með færslu
 Mynd: Freyr Arnarson - RÚV
Fjórir greindust smitaðir af COVID-19 á Austurlandi í morgun, á Egilsstöðum og á Fáskrúðsfirði. Það verður lokað á Leikskólanum Tjarnalandi á Egilsstöðum á morgun, að frátaldri einni deild ,og hafa börn, foreldrar og starfsfólk öll verið hvött til þess að skrá sig í sýnatöku. Óvenju mörg smit hafa greinst í umdæminu og dreifast þau um nokkuð stórt landsvæði, er fram kemur í tilkynningu Lögreglunnar á Austurlandi.

Lögreglan lýsir í tilkynningu yfir áhyggjum af vexti faraldursins á Austurlandi. Íbúar eru hvattir til ítrustu varkárni og eru þeir beðnir að gæta sérstaklega að sér í margmenni. 

„Þá er athygli stjórnenda vinnustaða og félagasamtaka vakin á þessari stöðu og þeir hvattir til að huga vel að ráðstöfunum til að koma í veg fyrir smit innan þeirra raða“ segir í tilkynningunni. Loks er biðlað til íbúa að fara í PCR sýnatökur finni þeir til minnstu einkenna.