
Sendiherra kallaður á fund vegna ummæla Abe um Taívan
Abe sagði á stafrænum fundi taívansks sérfræðingahóps í gær að þær ógnir sem beindust að Taívan ættu sömuleiðis við Japan. Hann kvaðst því vara Xi Jinping forseta Kína við því að allir hernaðartilburðir í garð Taívan væru skref í átt að fjárhagslegu sjálfsvígi.
Það segir utanríkisráðuneyti Kína vera ruddaleg afskipti af innanríkismálum ríkisins og því var japanski sendiherrann boðaður á fund. Allt frá því að Tsai Ing-wen var kjörin forseti Taívan hafa Kínverjar aukið þrýstíng sinn en hún hafnar alfarið þeirri kenningu að landið sé hluti Kína.
Aukin umsvif Kínverja í lofthelgi Taívan undanfarna mánuði hafa vakið ugg í brjóstum bandamanna þeirra, Japans og Bandaríkjanna þar með talinna. Ótti um að Kínverjar hyggi á innrás í Taívan eykst þótt ekki sé talið líklegt að þeir láti til skarar skríða alveg á næstunni.
Fyrr í vikunni kynnti bandaríska varnarmálaráðuneytið áætlanir um aukinn hernaðarviðbúnað á Guam og í Ástralíu. Japanir hafa sömuleiðis mótmælt auknum umsvifum Kínverja á svæðinu hástöfum, ekki síst í tengslum við umdeildar eyjar í Suður-Kínahafi.
Hua Chunying aðstoðarutanríkisráðherra Kína rifjaði upp fyrri tíma hernaðaraðgerðir Japana gegn Kínverjum og sagði þá ekki hafa nokkurn rétt eða vald til að tjá sig um málefni Taívan.