Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Óvíst hvaðan omíkrón-smitið barst

Mynd með færslu
 Mynd: Grímur Jón Sigurðsson - RÚV
Sá sem greindist með omíkron-afbrigði kórónuveirunnar í gær var ekki nýkominn frá útlöndum og því er ljóst að afbrigðið gengur einhversstaðar laust í samfélaginu. Þetta segir verkefnastjóri Farsóttarnefndar Landspítala. Smitrakning er nú í fullum gangi.  

Þetta var fyrsta smitið af þessu afbrigði sem greinist hér á landi.

„Okkur er ekki ljóst alveg núna hvernig útbreiðslan er,“ segir Hildur Helgadóttir, verkefnastjóri Farsóttarnefndar Landspítala.  „Viðkomandi er ekki sjálfur nýkominn frá útlöndum þannig að hann hefur smitast af einhverjum öðrum. Meira vitum við ekki á þessari stundu.“

Hann hefur smitast af einhverjum hér á landi? „Já.“

Þannig að einhversstaðar gengur omíkron laust? „Já, Og það er nú bara það sem við erum að sjá út um allan heim, eða að minnsta kosti mjög víða: það er að greinast víða og þetta virðist vera búið að ganga kannski lengur en menn hugðu.“

Nú hefur verið talað um að smitstuðull ómikrón sé hærri en af öðrum afbrigðum - smitrakning hlýtur þá að vera býsna víðfeðm? „Hún er það alltaf,“ segir Hildur. „Í raun og veru breytir þetta ekki smitrakningu. Hún kastar netum sínum alltaf vítt. En þetta er svo nýskeð að við erum ekki búin að sjá útbreiðsluna í þeim hópi er undir í rakningunni.“
Veistu hversu margir eru undir í smitrakningunni? „Nei, ég veit það ekki á þessu stigi.“

Um er að ræða fullorðinn karlmann, sem nú liggur á Landspítala en er ekki mikið veikur, að sögn Hildar Helgadóttur verkefnastjóra Farsóttarnefndar.