Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Keppa í fyrsta sinn á hópfimleikamóti á EM í Portúgal

Mynd: Stefán Þór Friðriksson / Stefán Þór Friðriksson

Keppa í fyrsta sinn á hópfimleikamóti á EM í Portúgal

02.12.2021 - 14:48
Landslið íslands í unglingaflokki blandaðra liða keppti í undanúrslitum á EM í hópfimleikum í gærkvöld. Liðið varð í þriðja sæti og keppir í úrslitum á morgun, föstudag. Gísli Már Þórðarson og Jóhann Gunnar Finnsson kepptu á sínu fyrsta allra fyrsta hópfimleikamóti í undanúrslitunum í gær.

Strákarnir koma báðir frá Akureyri og hafa æft og keppt í áhaldafimleikum. Evrópumeistaramótið í Portúgal er hins vegar í allra fyrsta hópfimleikamótið sem þeir keppa á. „Þetta var mjög skrítið sko, mér fannst ég ekkert vera á EM í fyrsta skipti allt gekk bara mjög vel,“ segir Gísli Már. 

Jóhann Gunnar segir hópfimleikakeppnisferilinn ekki geta byrjað mikið betur þó það sé vissulega skrítið að mæta beint á Evrópumeistaramót. „Mjög spes. Fyrsta hópfimleikamótið og bara beint mættur til Portúgal á eitthvað stórmót.“

Magnús Indriði Benediktsson, liðsfélagi þeirra í blandaða liðinu, segir allt hafa gengið vel hjá liðinu í gær og krakkarnir eru mjög vel stemmd. Markmiðið er svo auðvitað að bæta sig í úrslitunum á morgun en þau verður hægt að sjá í beinni útsendingu á YouTube síðu evrópska fimleikasambandsins og hér á ruv.is. 

Í dag, fimmtudag, keppa fullorðinslið Íslands í undanúrslitum og á laugardag verður sýnt beint frá úrslitum í fullorðinsflokki á RÚV. 

Tengdar fréttir

Fimleikar

Nóg inni hjá íslensku unglingaliðunum fyrir úrslitin