Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Hlaðborð í Osló gæti verið stærsta omíkron-hópsmitið

Mynd með færslu
 Mynd: CC0 - Pixabay
Grunur leikur á að 50 til 60 gestir á jólahlaðborði í Osló séu smitaðir af omíkron-afbrigðinu. NRK slær því upp að þetta geti verið stærsta omíkron-hópsmitið sem vitað sé um í heiminum. Forsætisráðherra Noregs hefur boðað til blaðamannafundar vegna stöðunnar í kórónuveirufaraldrinum.

Fram kemur á vef NRK að fólkið hafi verið á jólahlaðborði veitingastaðarins Lousie. Flestir voru starfsmenn fyrirtækisins Scatec sem er með starfsemi víða um heim, meðal annars í Suður-Afríku. Og einn úr hópnum var einmitt nýkominn úr viðskiptaferð frá Suður-Afríku þar sem afbrigðið greindist fyrst.

Jonas Gahr Støre, forsætisráðherra Noregs, hefur boðað til blaðamannafundar síðdegis í dag vegna stöðunnar í kórónuveirufaraldrinum.  Støre hefur sagt að þröskuldurinn fyrir hertum aðgerðum sé hár.

Omíkron-afbrigðið er nú sagt hafa verið komið mun fyrr til Evrópu en áður var talið . Samkvæmt vef sóttvarnastofnunar Evrópu í gær höfðu 59 tilfelli greinst í Evrópu. Í morgun var síðan greint frá því að einn sjúklingur á Landspítala hafði greinst með þetta afbrigði. Sá virðist ekki hafa haft nein tengsl við útlönd. 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV