Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Biðlar til fólks að huga að brunavörnum á aðventunni

Sólrún Alda Waldorff sem brenndist illa í bruna árið 2019 hvetur almenning til að huga vel að brunavörnum á aðventunni. Hún tekur nú þátt í árvekniátaki Húsnæðis og mannvirkjastofnunar.

Sólrún Alda segir að bataferli hennar hafi gengið betur en fólk þorði að vona en þrátt fyrir það glími hún enn við talsverð veikindi. Eldurinn kviknaði út frá olíu í potti í kjallaraíbúð þar sem Sólrún var með kærasta sínum.

Slökkviliði tóks við illan leik að bjarga þeim út. Sólrún segir að í ljósi þess að útköllum fjölgar mjög hjá slökkviliðinu í desember sé mikilvægt að fólk hugi að brunavörunum og undirbúi flóttaleiðir.

Þarf að vera með plan

Loftur Einarsson slökkviliðsmaður, er einn af þeim sem bjargaði Sólrúnu og kærasta hennar úr brennandi íbúðinni. „Fyrst og fremst þarf fólk að hafa reykskynjara og vita um flóttaleiðir. Það þarf að vera með plan“ segir Loftur.

„Margir sem ég þekki fyrir mitt slys voru ekki með eldvarnarteppi eða slökkvitæki, það var bara gert ráð fyrir að reykskynjari væri nóg“ segir Sólrún. Hún segir að henni þyki erfitt að rifja upp áfallið, en vilji geta gert eitthvað jákvætt með þessa lífsreynslu.

Vill nýta reynsluna til þess að aðstoða aðra eftir áföll

„Ég var staðráðin í því að þetta yrði ekki bara eitthvað neikvætt í lífinu mínu, ég vildi gera eitthvað úr þessu, eitthvað jákvætt og er svona heppin að fá tækifæri til að geta tekið þátt í þessu verkefni og vonandi bjarga einhverjum“ segir Sólrún.

Hún er nýútskrifuð úr háskólanámi í sálfræði og segist vonast til þess að geta aðstoðað aðra að vinna úr áföllum. „Ég myndi jafnvel vilja ná fram kerfisbreytingum í heilbrigðiskerfinu um hvernig er unnið er úr þessu. Það vantar upp á áfallahjálp, finnst mér, eftir svona slys“ segir Sólrún.

Hægt er að horfa á viðtalið úr Katljósi, við Sólrúnu Öldu Waldorff og Loft Einarsson slökkviliðsmann, í spilaranum hér að ofan.

einar's picture
Einar Þorsteinsson
Fréttastofa RÚV
Ólöf Rún Erlendsdóttir