
Aron og Eggert reikna með að málið verði fellt niður
„Skjólstæðingar okkar hafa þegar lýst yfir sakleysi sínu og hafa nú loksins fengið að segja formlega frá sinni hlið í skýrslutöku hjá lögreglu eins og þeir óskuðu eftir,“ segir í yfirlýsingunni sem lögmaður Arons Einars sendi fjölmiðlum.
Leikmennirnir hafna því með öllu að hafa brotið af sér og reikni með að málið verði fellt niður. Afstaða þeirra sé því alveg óbreytt. „Að öðru leyti vísast til fyrri yfirlýsinga þeirra en þeir munu ekki tjá sig frekar um málið að sinni.“
Fréttastofa greindi frá því í hádeginu að báðir leikmennirnir hefðu gefið skýrslu í vikunni en málið var tekið upp að nýju hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu að beiðni brotaþola.
Báðir leikmennirnir hafa sent frá sér yfirlýsingu vegna málsins. Aron sagðist aldrei hafa gerst brotlegur gagnvart neinum eða neinni og að hann ætlaði sjálfur að óska eftir því að fá að gefa skýrslu hjá lögreglu.
Hann hefur ekki verið valinn í íslenska landsliðshópinn að undanförnu og sagði í yfirlýsingu sinni að það hlytu að vera sögusagnir um meint brot í Kaupmannahöfn.
„Það er hrikalegt áfall að vera ásakaður um hræðilegt ofbeldisbrot vegna atviks sem var svo sannarlega ekki með þeim hætti sem lýst er í fjölmiðlum,“ sagði Eggert Gunnþór í yfirlýsingu sinni eftir að hafa verið nafngreindur í umfjöllun Stundarinnar.