Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Aron Einar búinn að gefa skýrslu hjá lögreglu

02.12.2021 - 10:54
Mynd með færslu
 Mynd: Mummi Lú - RÚV
Aron Einar Gunnarsson, fyrirliði íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu, og Eggert Gunnþór Jónsson, knattspyrnumaður, hafa báðir gefið skýrslu hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu í tengslum við rannsókn á kynferðisbroti í Kaupmannahöfn fyrir ellefu árum, samkvæmt upplýsingum fréttastofu. Skýrslutökurnar yfir þeim báðum fóru fram í vikunni.

Fréttastofa greindi frá því í lok september að lögreglan hefði tekið upp mál Arons Einars og Eggerts Gunnþórs að nýju að beiðni brotaþolans í málinu. 

Bæði Aron Einar og Eggert Gunnþór hafa sent fjölmiðlum yfirlýsingu þar sem þeir segjast saklausir af þeim ásökunum sem á þá hafa verið bornar.

„Það er hrika­legt áfall að vera ásakaður um hræðilegt of­beld­is­brot vegna at­viks sem var svo sann­ar­lega ekki með þeim hætti sem lýst er í fjöl­miðlum,“ sagði Eggert Gunnþór í yfirlýsingu sinni eftir að hafa verið nafngreindur í umfjöllun Stundarinnar.

Aron sagði í sinni yfirlýsingu að hann hefði aldrei gerst brotlegur gagnvart neinum eða neinni og að hann ætlaði sjálfur að óska eftir því að fá að gefa skýrslu hjá lögreglu. 

Aron Einar hefur ekki verið valinn í íslenska landsliðshópinn að undanförnu og sagði í yfirlýsingu sinni að það hlytu að vera sögusagnir um meint brot í Kaupmannahöfn.

Ævar Pálmi Pálmason, yfirmaður kynferðisbrotadeildar, segir í samtali við fréttastofu að rannsókn á ofbeldisbroti sem kom upp í Kaupmannahöfn fyrir ellefu árum miði vel en vildi að öðru leyti ekki tjá sig um málið.

Aron Einar er ekki eini leikmaður íslenska landsliðsins sem sætir lögreglurannsókn. Gylfi Þór Sigurðsson er laus gegn tryggingu á Englandi til 16. janúar vegna rannsóknar þarlendra yfirvalda á kynferðisbrot gegn barni.  Hann hefur hvorki leikið með íslenska landsliðinu né liði sinu Everton á yfirstandandi leiktíð.