Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Afdrif gömlu loforðanna: Sum óbreytt, önnur horfin

Mynd: RÚV / RÚV
Hluti þeirra aðgerða sem ríkisstjórninni tókst ekki að ljúka á síðasta kjörtímabili ratar óbreyttur inn í nýjan stjórnarsáttmála, sum loforðanna eru þar í breyttri mynd, sum hafa tekið þónokkrum breytingum. Önnur virðast hafa gufað upp. Formaður sambands íslenskra sveitarfélaga sýtir gistináttagjaldið sem ekki skilaði sér og formaður Samtaka fyrirtækja í velferðarþjónustu vonar að það komi ekki að sök þó ekki sé minnst á hjúkrunarheimili í sáttmálanum.

Ekki útbólginn af loforðum

Nýr stjórnarsáttmáli Sjálfstæðisflokks, Framsóknarflokks og Vinstri grænna var kynntur á sunnudag. Þar er að finna lista með 213 verkefnum. Sum kunna þó að sögn upplýsingafulltrúa forsætisráðuneytisins að fela í sér fleiri en eina aðgerð, vinna við greiningu fer fram á næstu dögum í samstarfi ráðuneytanna og því styttist í að endanlegur fjöldi aðgerða liggi fyrir.

Sáttmálinn hefur verið gagnrýndur af stjórnarandstöðunni, sagður froðukenndur og laus við hugsjónir. Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, segir margt í honum endurnýtt og Drífa Snædal, forseti ASÍ, hefur talað um endurvinnslu svikinna loforða. 

 „Ég myndi nú segja að þetta sé ekki útbólgið af loforðum, þessi sáttmáli,“ sagði Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, í Kastljósi á mánudagskvöld.  

Þó að Katrín segi lítið um loforð eru aðgerðirnar fleiri nú en í fyrri sáttmála flokkanna þriggja, þegar þær voru 189. 

Meirihluti óskilgreindur

Flest verkefnanna 213 í nýjum stjórnarsáttmála eru frekar almennt orðuð; það á að stuðla að mörgu, móta stefnu, efla og styðja hitt og þetta. Greining fréttastofu leiddi í ljós að meirihluti aðgerðanna var óskilgreindur, ótímasettur og útfærslan óljós. Sumum finnst sáttmálinn frekar líkjast innkaupalista en aðgerðaáætlun, en svona eru stjórnarsáttmálar jú oft, þetta eru stóru línurnar.

Skömmu fyrir kosningar gerðu ríkisstjórnarflokkarnir upp síðasta kjörtímabil á blaðamannafundi í Reykjanesbæ, sögðu frá stöðu aðgerðanna 189 í sáttmálanum frá 2017. Af 189 aðgerðum sögðust stjórnvöld hafa lokið 138. Þrír af hverjum fjórum urðu sem sagt að veruleika og stór hluti þeirra sem eftir var sagður kominn vel á veg. Matið á aðgerðunum var huglægt, sjálfsmat í raun og hægt að klóra í ýmislegt.

Aðgerðirnar voru misvel skilgreindar og ekki alltaf auðvelt að ráða af heiti þeirra hvað þurfti að uppfylla til að ljúka þeim. Þannig tókst stjórnvöldum að eigin mati að leggja áherslu á forvarnir og lýðheilsu og leggja áherslu á málefni hafsins á vettvangi Norðurskautsráðsins.

Aðrar aðgerðir sem tókst að ljúka voru skýrari svo sem að fjármögnun háskóla næði meðaltali OECD-ríkja.

Flestar aðgerðanna sem ekki náðist að ljúka voru sagðar komnar vel á veg, það er mótaðar að mestu og niðurstaða í augsýn. Það vakti athygli að þar á meðal var Miðhálendisþjóðgarður sem engin samstaða var um í stjórninni.

Afdrif gamalla loforða

Mynd með færslu
 Mynd: Viðar Hákon Söruson - RÚV
Formenn ríkisstjórnarflokkanna.

Sumar aðgerðanna sem lokið var hafa svo gengið aftur í nýjum sáttmála, en það er önnur saga. Hér verður heldur ekki farið yfir öll nýju loforðin í sáttmálanum heldur sjónum beint að afdrifum þeirra aðgerða sem ekki tókst að ljúka á síðasta kjörtímabili - eða hluta þeirra, enda erfitt að reifa afdrif 51 aðgerðar í stuttu máli. Skiluðu hálfkláraðar aðgerðir sér inn í nýjan sáttmála? 

Til einföldunar skiptum við örlögum aðgerðanna í þrjá flokka. Fyrst má nefna aðgerðir sem til stendur að halda áfram að vinna að með svipuðum hætti og á síðasta kjörtímabili. Í öðru lagi má nefna gamlar aðgerðir sem rata aftur inn í stjórnarsáttmálann í nokkuð breyttri mynd og loks aðgerðir sem hafa hreinlega gufað upp. 

Endurnýjuð og óbreytt

Stjórnvöld ætla, líkt og þau ætluðu sér á síðasta kjörtímabili að lögfesta samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks og áfram er stefnt að því að fjölga hlutastörfum fyrir fólk með skerta starfsgetu. Til viðbótar er í nýja sáttmálanum talað um að tryggja menntunartækifæri fyrir fatlað fólk en gagnrýnt hefur verið að þau séu of fá, einhæf og úr takti við nútímann.

Stjórnvöld ætla að halda áfram að fjölga fríverslunarsamningum og afnema viðskiptahindranir.

Það á áfram að vinna að því að efla geðheilbrigðisþjónustu, áður var minnst sérstaklega á framhaldsskóla í því samhengi en nú er mest áhersla lögð á börn og ungmenni. Stjórnvöld náðu ekki að klára vinnu við að styrkja stöðu brotaþola í kynferðisbrotamálum, en nú á að leggja fram uppfært frumvarp.  

Mynd með færslu
 Mynd: KSÍ
Hvernig verður nýr þjóðarleikvangur?

Það á sem fyrr að byggja upp Þjóðarleikvang í Laugardal, endurskoða Nýsköpunarsjóð atvinnulífsins og vinna áfram að því að fjármögnun háskólastigsins nái meðaltali Norðurlanda á hvern nemanda fyrir árið 2025.

Stjórnarskráin og fleiri hnútar

Svo eru það loforð sem snúa aftur í breyttri mynd. Í sáttmálanum frá 2017 boðaði ríkisstjórnin heildarendurskoðun á stjórnarskránni í þverpólitísku samstarfi með aðkomu þjóðarinnar. Svo fór að frumvarp forsætisráðherra um nokkrar breytingar á stjórnarskránni var ekki afgreitt úr nefnd.

Mynd með færslu
 Mynd: Facebook - RÚV
Stjórnarskráin hefur verið hitamál á kjörtímabilinu.

Í nýja sáttmálanum er ekki að finna nein loforð um heildarendurskoðun. Fela á sérfræðingum að skoða þau ákvæði stjórnarskrárinnar sem snerta Alþingi, kosningar og kjördæmaskipan og dómstóla.

Ekkert er minnst á aðkomu almennings, í staðinn á að efna til samstarfs við fræðasamfélagið.

Framhald vinnu við stjórnarskrárbreytingar verður svo metið í framhaldinu. 

Á fleiri hnúta þurfti að höggva, í stað Miðhálendisþjóðgarðar sem Vinstri græn lögðu mikla áherslu á, á að stofna þjóðgarð á friðlýstum svæðum og jöklum á hálendinu, allt í góðu samráði við heimamenn. 

Vonbrigði SÍS með gistináttagjald

Mynd með færslu
 Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon - RÚV
Aldís Hafsteinsdóttir.

Í sáttmálanum frá 2017 lofuðu stjórnvöld að færa tekjur af gistináttagjaldi til sveitarfélaga. Skatturinn hefur verið felldur niður til að bregðast við heimsfaraldrinum. Vegna áframhaldandi samdráttar og óvissu í ferðaþjónustu leggja stjórnvöld til að gjaldið verði ekki innheimt fyrr en árið 2024. Það á að vinna að breytingum á fyrirkomulagi gistináttagjalds í samvinnu við greinina og sveitarfélögin með það að markmiði að sveitarfélögin njóti góðs af gjaldtökunni.

Ekki er nú skýrt að hve miklu leyti tekjurnar eiga að skila sér til sveitarfélaga. Hver eru viðbrögð Aldísar Hafsteinsdóttur, formanns Sambands íslenskra sveitarfélaga við þessu?

„Fyrst og fremst eru þetta auðvitað vonbrigði að gistináttagjaldið skyldi ekki vera fært til sveitarfélaganna á síðasta kjörtímabili eins og kom fram í stjórnarsáttmálanum þá. Við erum búin að hafa þetta í okkar stefnumörkun allt síðasta kjörtímabil og þar á undan líka þannig að þetta eru mjög mikil vonbrigði,“ segir Aldís. 

Hún er hrædd um að sveitarfélögin beri minna úr bítum, verði af því að gistináttagjaldið verði lagt á aftur og fyrirkomulaginu breyst.

„Það er erfitt að lesa í orðalagið en ég óttast pínulítið að það sé verið að tala þarna um að við fáum þetta ekki að fullu. Við höfum auðvitað rætt það í okkar ranni að yfirfærsla gistináttagjaldsins yrði með þeim hætti að hluti af því færi í framkvæmdasjóð ferðamannastaða og hluti til þeirra sveitarfélaga þar sem gistingin á sér stað. Það þarf að ræða en fyrst og síðast þarf að nást þessi viðurkenning ríkisvaldsins á nauðsyn þess að sveitarfélögunum séu tryggðir tekjustofnar til að standa straum af kostnaði við þá þjónustu sem við veitum ferðamönnum.“ 

Nýtt orðalag í umhverfismálum

Í sáttmálanum frá 2017 lofuðu stjórnvöld því að vinna vegvísi að kolefnishlutlausu Íslandi 2040, áfram á að vinna að kolefnishlutleysi en í nýjum sáttmála er ekkert minnst á vegvísi þangað.

Mynd með færslu
 Mynd: Rudy and Peter Skitterians - Pixabay

Áform um að hækka kolefnisgjald um 50% urðu ekki að veruleika á síðasta kjörtímabili. Á kolefnisgjald er ekki minnst í nýja sáttmálanum, en stjórnvöld hyggjast, í samráði við sveitarfélög og atvinnulífið, setja áfangaskipt losunarmarkmið fyrir hvern geira og þar stendur til að beita bæði ívilnunum og gjaldtöku á losun.

Tekjustofnar ríkisins verða svo lagaðir að markmiðum um orkuskipti, svo vegirnir grotni ekki niður. Hvernig nákvæmlega er óljóst en vegtollar voru nokkuð í umræðunni á síðasta kjörtímabili. 

Í fyrri sáttmála var svo fjallað um að setja lög um vindorkuver og leiðbeiningar um skipulagsákvarðanir og leyfisveitingar með sveitarfélögum. Nú er orðalagið annað, talað um sérstök lög um nýtingu vindorku og að mikil og breið sátt þurfi að ríkja um uppbygginguna. Umhverfisverndarsamtökin Landvernd segja nálgunina varhugaverða, vindorkuver eigi skilyrðislaust að falla undir rammaáætlun. 

Táknmálstúlkun og eignarhald á landi

Í síðasta sáttmála stóð til að skýra í lögum réttinn til táknmálstúlkunar í daglegu lífi, nú er fjallað um þetta með öðrum hætti. Að mörkuð verði stefna um íslenskt táknmál með sérstakri áherslu á málumhverfi táknmálstalandi barna. 

Í báðum stjórnarsáttmálunum er fjallað um eignarhald á landi, töluvert meira í þeim nýja en þeim gamla. Í gamla átti að setja skilyrði við kaup á landi í takt við stefnu stjórnvalda um þróun byggðar, landnýtingu og umgengni við auðlindir.

Í þeim nýja segir að ljúka þurfi við heildarendurskoðun á lögum og reglum um eignaráð, ráðstöfun og nýtingu fasteigna með áherslu á land og landgæði. Það þurfi stýritæki til að tryggja að notkunin sé í samræmi við stefnu stjórnvalda, gagnsætt eignarhald og reglur um rýni á tilteknum fjárfestingum erlendra aðila. 

Fátækt ekki nefnd og ekki heldur efnaminni eða tekjulágir

Í gamla stjórnarsáttmálanum lofuðu stjórnvöld að gera úttekt á kjörum tekjulægstu hópanna í samfélaginu, gera tillögur að úrbótum og fylgja þeim eftir. Þessi vinna kláraðist ekki. 

Mynd með færslu
 Mynd: Bjarni Rúnarsson - RÚV
Matarúthlutun.

Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, hefur gagnrýnt að í nýja sáttmálanum sé ekki minnst á fátækt fólk. Þar er raunar ekki heldur minnst á tekjulága hópa eða efnaminni. Aftur á móti lofa stjórnvöld að styðja við aldraða með íþyngjandi húsnæðiskostnað og bæta kjör örorkulífeyrisþega, einkum þeirra sem lakast standa. Örorkubætur eiga að hækka um 5,6% samkvæmt fjárlagafrumvarpinu sem kynnt var í gær. 

Inga og Steinunn Þóra Árnadóttir, þingmaður vinstri grænna, tókust á í Spegli gærdagsins. 

Inga sagði nýtt fjárlagafrumvarp boða áframhaldandi kjaragliðnun. „Mér finnst aumt að tala um einhverja kjarabót fyrir þessa hópa þegar verðbólgan og samfélagsástandið verður þess valdandi að þau eiga ekki eina einustu krónu umfram það sem þau eru búin að vera með í öllu sínu hokri.“

Steinunn sagði aftur á móti verið að styðja betur við tekjulægstu hópa samfélagsins. „Það þarf að lesa aðeins dýpra ofan í texta og ofan í fjárlagatillögur en að fara í einfalda orðaleit en það er svo sannarlega verið að leggja áherslu á tekjulágu hópana.“ 

Fleiri flóttamenn í viðkvæmri stöðu

Ekki tókst að taka á móti öllum þeim flóttamönnum sem til stóð á síðasta kjörtímabili, heimsfaraldur setti strik í reikninginn. Í stjórnarsáttmálanum frá 2017 var að finna markmið um að taka á móti fleiri flóttamönnum almennt. Í þeim nýja er lögð sérstök áhersla á kvótaflóttafólk í viðkvæmri stöðu.

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Ágúst Ólafsson
Sýrlenskt flóttafólk á Hvammstanga.

Þá verður áfram unnið að því að tryggja samfellu í þjónustu við þá sem fá vernd og endurskoða útlendingalög, meðal annars með það að markmiði auðvelda erlendum sérfræðingum og fólki sem fær dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða að fá að vinna hér. 

Umdeild Útlendingastofnun

Útlendingastofnun færist frá dómsmálaráðuneyti undir félagsmálaráðuneyti í nýju kerfi. Störf stofnunarinnar hafa oft verið umdeild og komist í hámæli í umræðunni. Orðalag sáttmálans ber þessa kannski merki. Þar er talað um mikilvægi þess að bæta kerfið og sagt að regluverkið þurfi að vera mannúðlegt og framkvæmdin lögleg og þannig að hún komi í veg fyrir langvarandi óvissu hjá skjólstæðingum. Þá er lögð áhersla á að auka traust og gagnsæi um ákvarðanir útlendingayfirvalda. 

Horfin loforð - í það minnsta ekki nefnd

Sum loforðin hurfu einfaldlega, þar á meðal loforð um innleiðingu keðjuábyrgðar í ólíkum atvinnugreinum. Þetta var stórt mál fyrir örfáum árum en hefur fengið minna vægi í umræðunni undanfarið.

Áform um eigendastefnu fyrir Landsvirkjun og önnur orkufélög með sértækum viðmiðum um eignarhald og stjórnarhætti eru líka horfin. 

Bless Þjóðarsjóður

Árið 2017 lofuðu stjórnvöld því að afnema verðtryggingu á neytendalánum og gera fólki kleift að breyta verðtryggðum lánum í óverðtryggð. Þetta markmið hvarf og sömuleiðis áform um að tryggja fíklum viðunandi meðferðarúrræði. Ekkert er minnst á fyrra markmið um að meta allar áætlanir ríkisins út frá loftslagsmarkmiðum. 

Áform um að koma upp Þjóðarsjóði hafa líka gufað upp, hann átti að virka sem eins konar áfallavörn fyrir þjóðina og í hann átti að greiða arð af auðlindum landsins, einkum greiðslur frá Landsvirkjun, til að byrja með. Hluta þessa fjár átti svo að nýta til að byggja upp hjúkrunarheimili. Frumvarp um sjóðinn var lagt fram í tvígang en ekki afgreitt, svo skall á heimsfaraldur og þá var stofnun hans slegið á frest því ríkissjóður þyrfti á öllum sínum fjármunum að halda til að fjármagna hallarekstur og skuldasöfnun.

Vonbrigði fái hjúkrunarheimilin ekki meira

Talandi um hjúkrunarheimili, áform um að tryggja rekstrargrundvöll þeirra og ráðast í stórsókn í uppbyggingu voru áberandi í síðasta sáttmála, í þeim nýja er aftur á móti ekkert minnst á hjúkrunarheimili en þess getið að ný stefna um þjónustu við eldra fólk, sem á að vinna í miklu samráði við hagsmunaaðila, verði grundvöllur vinnu við aðgerðaáætlun til fimm ára.

Mynd með færslu
 Mynd: Grímur Jón Sigurðsson - RÚV
Björn Bjarki Þorsteinsson.

 

Einstaklingurinn verði hjartað í kerfinu og eigi að hafa aðgang að samþættri þjónustu, heimahjúkrun og stuðningsþjónustu. 

Björn Bjarki Þorsteinsson, formaður samtaka fyrirtækja í Velferðarþjónustu, fagnar aukinni áherslu á samstarf og lítur ekki svo á að snúið hafi verið baki við áformum um að tryggja rekstrargrundvöll og byggja upp þó ekki sé jafn skýrt kveðið að orði og í fyrri sáttmála. 

„Við kjósum allavega fyrst í stað að horfa á það þannig að það sé bara verið ða horfa á málaflokkinn í heild sinni og vinna að frekari stefnumörkun en það er rétt að það var komið skýrt inn á það í stjórnarsáttmála fyrrverandi ríkisstjórnar að það ætti að styrkja rekstrargrunn hjúkrunarheimila á því kjörtímabili. Það varð í rauninni ekki fyrr en á haustmánuðum 2021 að það var sett inn viðbótarfjármagn, 1,3 milljarður í heildina. Það skiptir sköpum fyrir rekstur yfirstandandi árs en við sjáum þess ekki merki að það framlag sé inni í fjárlögunum sem nú er búið að kynna en ég trúi ekki öðru en að úr því verði bætt milli umræðna um fjárlagafrumvarpið fyrir árið 2022, annað væri mikil vonbrigði.“ 

Hann vonar að stjórnvöld lítil til Gylfanefndarskýrslunnar frá í vor. „Þar var gerð óháð úttekt á rekstri heimilanna og þar kom skýrt fram að það vantar inn í rekstrargrunninn.“ 

Fimm milljarðar eru í fjárlagafrumvarpi næsta árs eyrnamerktir uppbyggingu hjúkrunarheimila og Björn Bjarki segir ekki vanþörf á.