Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Rennsli úr Grímsvötnum eykst hægar en árið 2010

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Landhelgisgæslan
Útlit er fyrir að rennsli í Grímsvatnahlaupi verði ekki eins mikið og spár gerðu ráð fyrir í upphafi. Rennslið hefur aukist hægar en það gerði í hlaupinu 2010. Búist er við að hlaupið nái hámarki um helgina. Íshellan hefur sigið um tæpa tíu metra.

Jarðvísindastofnun Háskóla Íslands gaf út nýja rennslisspá seint í gærkvöld. Hún tekur mið af rennsli út frá sigi íshellunnar og því vatnsmagni sem búið er að skila sér miðað við sigið og spáir fyrir um framhaldið út frá því.

Samkvæmt spánni er gert ráð fyrir að rennslið nái hámarki í Gígjukvísl seinni partinn á sunnudag eða á mánudagsmorgun og verði þá um 4.000 rúmmetrar á sekúndu. 

„Í hlaupinu 2010 var 6-12 tíma seinkun milli hámarksrennslis úr vötnunum og í Gígjukvísl og bví má búast við rennslistoppi í Gígjukvísl á sunnudaginn eða aðfaranótt mánudags. Einnig var hámarksrennslið í Gígjukvísl líklega einhverjum hundruðum m3/sek hærra í Gígjukvísl en úr vötnunum í hlaupinu 2010 og því ekkert ósennilegt að hámarksrennsli í Gígjukvísl fari nærri 4000 m3/sek.“ segir í færslu Jarðvísindastofnunnar.

Samkvæmt mælingum Veðurstofu Íslands og Jarðvísindastofnunar hefur íshellan sigið um rétt tæpa tíu metra. Gríðarlega mikið vatn hefur þegar komið undan Grímsvötnum, eða 0,175 rúmkílómetrar, sem samsvarar 175 milljörðum lítra.  Rennslið úr Grímsvötnum nú er um 800 rúmmetrar á sekúndu og á eftir að aukast jafnt og þétt fram að helgi. Nánar má skoða mælingarnar hér fyrir neðan, hér og hér