Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

HM í handbolta hefst í dag

epa09608890 Spain's Irene Espinola (R) in action against Germany's Antje Lauenroth (C) during the friendly match between Spain and Germany at the Women's Handball International Tournament in Boadilla del Monte, near Madrid, Spain, 28 November 2021.  EPA-EFE/David Fernandez
 Mynd: EPA

HM í handbolta hefst í dag

01.12.2021 - 09:39
Heimsmeistaramót kvenna í handbolta byrjar á Spáni í dag. Fyrsti leikur mótsins verður leikur Spánar og Argentínu.

Eins og venja er á stórmótum spilar gestgjafinn fyrsta leikinn. Spánn komst alla leið í úrslit á HM 2019 og mættu þar Hollandi. Holland hafði betur og vann sinn fyrsta heimsmeistaratitil. Spánn hefur þrisvar fengið silfur á stórmóti; á HM 2019, EM 2014 og EM 2008. Þá fengu Spánverjar brons á Ólympíuleikunum í London 2012. 

Nokkuð aðra sögu er að segja af Argentínu. Á meðan Spánn fékk silfur á HM fyrir tveimur árum hafnaði Argentína í 16. sæti, sem jafnframt er besti árangur liðsins á HM. Argentínu hefur einu sinni tekist að tryggja sér keppnisrétt á Ólympíuleikunum, það var í Ríó 2016, og þar endaði liðið í tólfta og neðsta sæti. Leikur Spánar og Argentínu hefst klukkan 19:30 og er í beinni útsendingu á RÚV 2 í kvöld.

32 lið frá fimm heimsálfum taka þátt á HM en leikið verður í Torrevieja, Llíria, Castllón og Granollers. Flestir handboltasérfræðingar spá Noregi eða Frakklandi sigri á mótinu og telja þessar tvær þjóðir vera skrefi framar en aðrar á HM. Þórir Hergeirsson er þjálfari Noregs en hann er kominn á sjöunda heimsmeistaramótið með Noreg sem aðalþjálfari.

Sýnt verður beint frá HM í handbolta á RÚV og RÚV 2 og er hægt að sjá leikjadagskrána fram undan með því að smella hér