Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Willum fékk minnisblað frá Þórólfi um omíkron-afbrigðið

Mynd með færslu
 Mynd: Haukur Holm
Willum Þór Þórsson, nýr heilbrigðisráðherra, er þegar búinn að fá sitt fyrsta minnisblað frá Þórólfi Guðnasyni, sóttvarnalækni þrátt fyrir að hafa aðeins verið í starfi í rúman sólarhring. Í minnisblaðinu fjallar Þórólfur um hið nýja omíkron-afbrigði. Hann segist ekki vera með tillögur um hertari aðgerðir á landamærum eða innanlands „en það kann að breytast fljótt.“

Willum hafði varla fyrr tekið við lyklunum frá Svandísi Svavarsdóttur, heilbrigðisráðherra, en að hann fékk minnisblað frá Þórólfi sem hann kynnti síðan á fundi ríkisstjórnarinnar í morgun. Í því fer sóttvarnalæknir yfir hvað einkennir omíkron-afbrigðið sem hefur valdið miklum áhyggjum í Evrópu og víðar.

Þórólfur segir að greinst hafi um 60 stökkbreytingar í afbrigðinu og þar af um 30 í hinu svokallaða gaddageni veirunnar sem stjórni framleiðslu á „spike prótíni“. Og það sé langt umfram það sem áður hafi sést. „Þegar svo margar stökkbreytingar verða á S-prótíninu þá vakna áhyggjur af því að smithæfni hennar kunni að aukast, hún geti valdið alvarlegri veikindum og að ónæmi sem fengist hefur af fyrri sýkingum og bólusetningum muni ekki vernda gegn frekari sýkingum/smiti.“

Þórólfur útskýrir síðan hvað þetta S-prótín sé. Það finnist á yfirborði veirunnar og stýri því hvernig hún komist inn í frumur líkamans. „Þannig gegnir þetta prótín lykilhlutverki við dreifingu og fjölgun veirunnar í líkamanum. Ónæmiskerfi líkamans myndar einnig mótefni gegn prótíninu í kjölfar náttúrulegra sýkingu og eftir bólusetningu sem verndar gegn frekari sýkingum.•

Þórólfur segir að nýjustu upplýsingar bendi til þess að þetta nýja afbrigði sé ekki eingöngu bundið við lönd í suðurhluta Afríku heldur hafi það greinst í öðrum heimshlutum og nokkrum löndum Evrópu. Hollensk heilbrigðisyfirvöld tilkynntu til að mynda í morgun að afbrigðið hefði sennilega borist til landsins í kringum 19. nóvember. „Við þurfum því að vera undir það búin að það geti borist hingað til lands. Jafnframt þurfum við að undirbúa að grípa þurfi til hertari aðgerðum á landamærum,“ segir í minnisblaðinu.

Þórólfur telur engu að síður að þær aðgerðir sem nú séu í gangi á landamærunum eigi að minnka áhættuna á því að omíkron-afbrigðið berist inn í landið en þær komi ekki að öllu leyti í veg fyrir það. „Raðgreining veirunnar sem gerð er af Íslenskri erfðagreiningu mun auk þess greina veiruna fljótt og örugglega og er reynt að flýta því ferli eftir föngum.“

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV