Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Slökkt á frøken klukku

30.11.2021 - 16:44
Mynd með færslu
Marianne Germer útvarpsþulur. Hún hefur sagt Dönum hvað tímanum líður frá árinu 1970. Mynd: Teknisk foto
Rödd sem Danir hafa getað hlustað á hvenær sem er sólarhringsins í meira en áttatíu ár þagnar í dag. Tæknibreytingar valda því að þeim fækkar stöðugt sem kæra sig um að heyra í henni.

Frøken klukka hefur sagt öllum sem í hana hringja hvað tímanum líður allt frá árinu 1939, ári áður en Margrét Þórhildur drottning fæddist. Reyndar hefur sama röddin ekki verið notuð allan tímann. Frá 1939 til 1970 var það Anna Edith Sommer-Jensen, talsímavörður hjá símafélagi Danmerkur, sem sá um að segja landsmönnum hvað tímanum leið. Þá leysti Marianne Germer, þulur hjá danska ríkisútvarpinu, hana af og hefur séð um verkið allar götur síðan.

Frøken klukka þótti mikil tækninýjung árið 1939. Fyrsta sólarhringinn eftir að hún var tekin í notkun hringdu um fimmtíu þúsund manns í hana og ellefu komma sex milljónir fyrsta árið. Nú orðið hringja í klukkuna fimm til sjö þúsund á mánuði. Snjallsímar hafa leyst hana af hólmi. Nú geta eigendur þeirra einfaldlega spurt Siri eða Alexu hvað tímanum líði.

Fyrir sex árum spurði fréttastofa danska sjónvarpsins fólk á förnum vegi hvort það hringdi stundum í frøken klukku. Í ljós kom að fæstir höfðu hugmynd um að hún væri enn í gangi. 

asgeirt's picture
Ásgeir Tómasson
Fréttastofa RÚV