Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Næsta öruggt að Castro verði næsti forseti Hondúras

30.11.2021 - 01:17
epaselect epa09610361 Presidential candidate Xiomara Castro speaks after knowing the partial results of the elections, in Tegucigaloa, Honduras, 28 November 2021. Castro, of the opponent Libertad y Refundacion (Libre) party, leads the first counts of the general elections held in Honduras, followed by the official Nasry Asfura, according to preliminary results released by the National Electoral Council (CNE).  EPA-EFE/Humberto Espinoza
 Mynd: EPA-EFE - EFE
Allt bendir til þess að Xiomara Castro, frambjóðandi vinstri flokka í nýafstöðnum forsetakosningum í Hondúras og fyrrverandi forsetafrú, verði fyrsta konan til að setjast á forsetastól í landinu. Þegar búið er að telja rúmlega helming atkvæða hefur Castro fengið rúm 53 prósent þeirra og er með nær 20 prósentustiga forskot á helsta keppinautinn, Nasry Asfura, frambjóðanda Þjóðarflokksins.

Castro lýst sigurvegari þótt kjörstjórn hiki

Castro hefur þegar lýst sig sigurvegara kosninganna og það hafa helstu fjölmiðlar Hondúras líka gert, þótt landskjörstjórn leggi áherslu á að enginn verði úrskurðaður sigurvegari fyrr en öll atkvæði hafa verið talin. Þegar búið er að telja ríflega 1,8 milljónir atkvæða er Castro með 350.000 atkvæða forskot.

Forseti tólf árum eftir að eiginmanninum var steypt af stóli

Fari sem horfir verður Castro fyrsti forsetinn af vinstri vængnum síðan eiginmanni hennar,Manuel Zelaya, var steypt af stóli af hondúrska hernum árið 2009 að undirlagi háttsettra herforingja og viðskiptajöfra, með blessun hæstaréttar.

Í kosningabaráttunni hefur Castro lofað miklum breytingum og umbótum í stjórn landsins. Þar ber hæst yfirhalning stjórnarskrárinnar, aukið frelsi til þungunarrofs og stórátak gegn spillingu, með aðstoð og stuðningi Sameinuðu þjóðanna.