Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Mikilvæg þrjú stig sótt til Kýpur

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV

Mikilvæg þrjú stig sótt til Kýpur

30.11.2021 - 18:57
Ísland sótti mikilvæg þrjú stig í sínum síðasta leik á árinu þegar liðið vann Kýpur örugglega 4-0 ytra. Ísland er nú aðeins tveimur stigum á eftir Hollandi í undanriðlinum og á enn leik til góða.

Þetta er fjórði leikur Íslands í undankeppninni en Ísland er með sex stig eftir fyrstu þrjá leikina í riðlinum. Ísland fékk Kýpur í heimsókn á Laugardalsvöll í október. Þann leik vann Ísland 5-0. Kýpur er með eitt stig í riðlinum eftir að hafa gert 1-1 jafntefli við Hvíta-Rússland á föstudag.

Fyrsta mark leiksins kom strax á sjöundu mínútu þegar Karólína Lea Vilhjálmsdóttir tók sig til og skoraði mark beint úr aukaspyrnu. Berglind Björg Þorvaldsdóttir fékk svo vítaspyrnu eftir stundarfjórðungsleik og fór sjálf á punktinn. Berglind Björg skoraði örugglega og tvöfaldaði þar með forystu Íslands. Sveindís Jane Jónsdóttir skoraði svo síðasta mark fyrri hálfleiks og 3-0 stóð í hálfleik. 

Karólína Lea var aftur á ferðinni snemma í fyrri hálfleik og átti aftur góða aukaspyrnu sem markmaður Kýpur varði þó. Guðrún Árnadóttir skallaði hins vegar frákastið í markið og skoraði þar með sitt fyrsta landsliðsmark, staðan orðin 4-0. Þetta reyndust lokatölur og Ísland lýkur því árinu 2021 með sigri. Holland er enn á toppi riðilsins en liðið gerði jafntefli við Tékka á laugardag og það þýðir að Ísland getur farið á toppinn með sigri í næsta leik þar sem liðið á enn leik til góða. 

Viðureign Tékklands og Hvíta-Rússlands sem fara átti fram í gær var frestað en næst verður spilað í riðlinum í apríl á næsta ári. Þá mætir Ísland Hvíta-Rússlandi. 

Staðan í C-riðli - Undankeppni HM 2023
Lið Leikir Stig
1. Holland 5 11
2. Ísland 4 9
3. Tékkland 4 5
4. Hvíta Rússland 3 4
5. Kýpur 6 1

 

Tengdar fréttir

Fótbolti

Byrjunarlið Íslands: Stillir upp sínu sterkasta liði