Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Jólin koma reykspólandi fyrir hornið

Mynd: Baggalútur / Baggalútur

Jólin koma reykspólandi fyrir hornið

30.11.2021 - 16:40

Höfundar

Nú er það byrjað blessað jólalagatímabilið og það eru heldur betur jólaneglur í boði í Undiröldu kvöldsins. Það er jólakóngurinn Laddi sem ríður á vaðið og að sjálfsögðu er stutt í jólavitringana í Baggalúti sem eru á ítölskum nótum. Önnur með rétta jólaskapið eru Heiða trúbador, Reykjavíkurdætur, Katrín Halldóra, Hildur Vala og Hjálmar ásamt Kára Stefáns sem eru ekki að jóla.

Laddi og Skólakór Kársnes - Dingaling

Jólalagakóngurinn Laddi hefur sent frá sér glænýtt jólalag þar sem hann nýtur aðstoðar Skólakórs Kársnesskóla við flutninginn. Þetta er fyrsta jólalagið sem Laddi sendir frá sér síðan á árinu 2007 en það var með Eiríki Fjalar á plötunni Jóla hvað? Það er Ásgeir Orri Ásgeirsson sem semur Dingaling og útsetur en Bragi Valdimar Skúlason semur textann.


Heiðatrúbador - Jólahitt

Út er komið jólalagið Jólahitt sem er jólareggílag eftir Ragnheiði Eiríksdóttur, betur þekkta sem Heiðu í Unun. Textinn er eftir rithöfundinn Kikku K. M. Sigurðardóttur, en hennar þekktasta verk er Ávaxtakarfan. Það var Stefán Örn Gunnlaugsson sem tók upp lagið og lék á öll hljóðfæri, en Heiða söng.


Baggalútur - Styttist í það

Baggalútur hefur sent frá sér lagið Styttist í það sem á ættir og innblástur að rekja til Ítalíu eins og hefur verið vinsæl uppskrift af íslenskum jólalögum í gegnum tíðina. Textinn lýsir óttablandinni tilhlökkun og örvæntingarfullum hátíðaundirbúningi pars, í aðdraganda jóla. Sérlegur gestur Baggalúts í þessu lagi er Bryndís Jakobsdóttir.


Reykjavíkurdætur - Komi desember

Reykjavíkurdætur gefa út jólalagið Komi desember. Lagið er ábreiða af laginu Christmas time is here eftir Vince Guaraldi sem kom út árið 1965 og var í sjónvarpsþættinum Charlie Brown Christmas Special. Þetta er í fyrsta sinn sem þetta annars vinsæla jólalag er gefið út með íslenskum texta en útsetning, upptaka og hljóðblöndun var í höndum Sölku Valsdóttur.


Katrín Halldóra - Gleðileg jól

Tónlistarkonan Katrín Halldóra Sigurðardóttir hefur sent frá sér lagið Gleðileg jól sem er jú jólalag. Það er Hjörtur Ingvi úr hljómsveitinni Hjaltalín sem semur lagið, Katrín Halldóra semur textann auk þess að syngja en Guðmundur Óskar pródúserar herlegheitin.


Hildur Vala - Ég ætla að kveikja á kerti

Hildi Völu langaði að gera jólalag - Jóni góða Ólafssyni leist bara vel á það og spurði Guðmund Andra rithöfund hvort hann ætti einhvern jólatexta. Hann sagðist vita af einum á gömlum hörðum diski. Daginn eftir fékk hann sér göngutúr með hundinn, það var dimmt úti og tunglið í algleymi og þá varð textinn Ég ætla að kveikja á kerti til. Jón gerði lag og fékk Ómar Guðjónsson til að hjálpa sér og Hildi Völu með undirspil.


Hjálmar og Kári Stefánsson - Kona

Hjálmar hafa í gegnum tíðina farið í samstarf með hinum ýmsu listamönnum, eins og t.d. Prins Póló, Mugison, Jimi Tenor og Erlend Oye. Að þessu sinni er það vísindamaðurinn, læknirinn og ljóðskáldið Kári Stefánsson. Þorsteinn Einarsson samdi lag við ljóð Kára, Kona í appelsínugulum kjól.