Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Full ástæða til að vera bjartsýnn

Miðað við það sem boðað var við kynningu stjórnarsáttmálans þykir Loga Einarssyni, formanni Samfylkingarinnar, vanta allar sóknarhugleiðingar í fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar sem kynnt var í dag. Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra segir ríkið ekki eitt standa í baráttunni, og líta verði til bættrar afkomu einkafyrirtækja.

Loga þykir ekki nóg gert í loftslagsmálum eða til þess að vinda ofan af ójöfnuði í landinu. Vissulega eigi að hækka lífeyri lægstu hópanna um 5,6 prósent, en það vanti viðvarandi verkefni til að vinda ofan af ójöfnuði. Bjarni bendir á að 13 milljarðar króna verði settir í loftslagsmál í fjárlögunum, en þar sé ríkið ekki eitt í baráttunni. Allt samfélagið verði að taka þátt í því. Logi segir 13 milljarða samsvara um 0,5 prósentum af landsframleiðslu, á meðan Evrópusambandið miði við 1,5% í sínum fjármálaáætlunum. 

Bjarni segir ekki gott að nota hráan samanburð á borð við þennan. Ísland hafi lengi unnið með lausnir sem ESB er fyrst núna að nýta sér, og við séum langt á undan mörgum Evrópuþjóðum. Þá vekur hann athygli á því að Seðlabankinn hafi hækkað vexti þar sem framleiðsluslakinn sé í raun og veru horfinn. „Þá er ekki skynsamlegt að koma með ríkisfjármálastefnu sem segir að nú förum við í sóknarhug,“ segir Bjarni í Kastljósi kvöldsins.

Hvort fjárlögin horfi of bjartsýnum augum á komandi ár segir Bjarni fjármálaráðuneytið fyrst og fremst styðja sig við opinberar spár. „Ef við skoðum kraftinn í einkaneyslunni núna og hvernig þetta ár er að fara fram úr eldri væntingum, þá er alveg full ástæða til að vera ágætlega bjartsýnn á framhaldið. Við sjáum fram á stóra loðnuvertíð, og margt sem er að leggjast með okkur,“ segir Bjarni. Logi segist sjálfur fagna loðnunni en gagnrýnir Bjarna fyrir að taka hana inn í jöfnuna. „Við þurfum einhvern veginn að ná fyrir vaðið og hætta að starfa ævinlega í viðbrögðum,“ segir Logi.

Þrjár vikur eru til stefnu til að klára umræður um fjárlagafrumvarpið. Bjarni segir það vissulega hafa áhrif á umræðuna að eftir á að púsla saman ráðherrum við frumvarpið. Nýr forsetaúrskurður sé kominn um verkefni einstakra ráðherra og nú þurfi að ná saman um hvernig þetta verði gert skynsamlega.