Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Fjárlögin vonbrigði fyrir SÁÁ

Mynd með færslu
 Mynd: Samsett mynd
Einar Hermannsson, forstjóri framkvæmdastjórnar SÁÁ, segir nýtt fjárlagafrumvarp vera mikil vonbrigði fyrir samtökin. Biðlistar í áfengismeðferð hafa lengst verulega frá upphafi heimsfaraldursins og óttast hann að álagið aukist enn frekar á næsta ári.

Tekjur ríkissjóðs af áfengisgjaldi hafa aukist mikið í ár og voru rúmlega 3 milljörðum meiri en áætlað var. Met voru sett í áfengissölu bæði í júlí og ágúst þegar samkomutakmarkanir voru með minnsta móti. Forstjóri SÁÁ segir þau hafa búist við að eitthvað af þessum tekjum myndi renna til meðferðar við áfengisfíkn.

Allir sammála fyrir kosningar að þyrfti meira fé

„Við buðum öllum stjórnmálaflokkum í heimsókn til okkar fyrir síðustu kosningar, þá voru allir sammála um að þyrfti að leggja þessu málefni til meira fé„ segir Einar. „Álagið hefur verið nefnilega mjög mikið. Þá er að fyrst núna að koma aðeins betur í ljós varðandi biðlistann á Vogi, hann hefur verið að lengjast hratt. En við munum náttúrulega bara halda áfram að reyna að safna fé til að gera allavegana fleirum kleift að komast til okkar en ríkið er að greiða fyrir“.

„Þurfum að safna milljón á dag“

 

„Sjálfsafla féð er um 400 milljónir á ári sem við þurfum til að halda í við það sem við vorum að gera 2019. Þannig við vöknum hvern einasta morgun og þurfum að safna rúmri milljón í sjálfsaflafé svo þetta gangi upp hjá okkur“ segir Einar. Hann bætir við að hann bindi vonir við að þetta verði ekki lokaniðurstaðan og biðlar til yfirvalda að auka fjárveitingar svo hægt sé að halda úti úrræðum SÁÁ.