Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Dómi frestað yfir Aung San Suu Kyi

30.11.2021 - 06:54
FILE - In this Jan 27, 2021, file photo, Myanmar leader Aung San Suu Kyi watches the vaccination of health workers at hospital in Naypyitaw, Myanmar. Reports says Monday, Feb. 1, 2021 a military coup has taken place in Myanmar and Suu Kyi has been detained under house arrest. (AP Photo/Aung Shine Oo, File)
 Mynd: AP
Dómstóll herforingjastjórnarinnar í Mjanmar frestaði í morgun dómsuppkvaðningu í fyrstu réttarhöldunum af mörgum yfir Aung San Suu Kyi. Í þessu máli er Suu Kyi ákærð fyrir undirróður og hvatningu til óhlýðni við herforingjastjórnina. Til stóð að kveða upp dóm í dag en því hefur verið frestað til 6. desember.

Friðarverðlaunahafinn og fyrrverandi leiðtogi Mjanmörsku þjóðarinnar í raun, þótt formlega fengi hún aldrei að bera neinn slíkan titil, hefur verið í haldi frá 1. febrúar. Þann dag tók herinn aftur öll völd í landinu eftir stutt tímabil þar sem hálfgildings lýðræði var viðhaft við stjórn landsins.

1.200 liggja í valnum og yfir 10.000 handtekin

Herinn hefur drepið yfir 1.200 manns og handtekið meira en 10.000 í aðgerðum sínum gegn þeim hundruðum þúsunda sem andæft hafa valdaráninu, samkvæmt ónefndum mjanmörskum samtökum sem fylgjast með mannréttindamálum og framgöngu herforingjastjórnarinnar í Mjanmar.

Dómurinn sem kveða átti upp í dag er aðeins einn af mörgum sem bíða Suu Kyi, sem á yfir höfði sér áratuga fangelsi verði hún sek fundin í þeim öllum.