Amma og afi prjóna fyrir Kvennaathvarfið

Mynd: Magnús Atli Magnússon / RÚV/Landinn

Amma og afi prjóna fyrir Kvennaathvarfið

30.11.2021 - 07:50

Höfundar

Í byrjun október tísti Selma Dís Hauksdóttir um ömmu sína og afa sem eru búsett á Hvammstanga. Þau eru bæði hætt að vinna en nýta stundirnar yfir sjónvarpinu á kvöldin til að prjóna. Sumt er hugsað fyrir afkomendur en þau fara líka reglulega í bæinn með poka fyrir gott málefni.

„Þetta sem ég er að prjóna núna er merkt Kvennaathvarfinu. Þegar ég fór í bæinn í haust fór ég með dálítið af vettlingum í poka, upp undir 20 pör, sem við vorum búin að gera. Og eitthvað af húfum,“ segir Agnes. Bóndinn hennar, Gunnar Konráðsson, er nefnilega farinn að grípa í prjónana líka. 

„Mér leiddist bara. Konan segir að ég hangi alltaf í tölvunni,“ segir Gunnar. 

Þau hjónin sitja sitt í hvorum endanum á stofunni í húsi sem þau hafa búið í síðan það var byggt 1968. 

„Óneitanlega er skemmtilegra að prjóna það sem maður veit að verður notað. Og jújú, maður er ánægður ef maður getur selt eitthvað af þessu eða fengið hól fyrir að þetta líti þokkalega út,“ segir Agnes.