Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Willum Þór tekinn við og má alltaf hringja í vin

29.11.2021 - 10:55
Mynd: Haukur Holm / Haukur Holm
Willum Þór Þórsson tók við lyklavöldum í heilbrigðisráðuneytinu í morgun, en hann er nýr ráðherra í nýrri ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur sem kynnt var í gær.

Fráfarandi heilbrigðisráðherra, Svandís Svavarsdóttir, sagði við tilefnið að hún treysti Willum afar vel til þess að taka við ráðuneytinu.

„Gangi þér allt að sólu. Mér líður bara virkilega vel að afhenda þér þetta stóra og mikilvæga ráðuneyti. Ég þekki þig af þínum góðu verkum. Þetta er hörku verkefni, en þú munt standa vel undir því. Svo má hringja í vin,“ sagði Svandís.

Willum Þór óskaði Svandísi sömuleiðis velfarnaðar í nýjum verkefnum, en hún tekur við sem sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. Aðspurður um hvernig það leggist í hann að vera heilbrigðisráðherra sagðist Willum spenntur en meðvitaður um miklar áskoranir. Hann sagði of snemmt að tala um áherslubreytingar.

„Það er alltof snemmt að segja til um það. Þetta bar brátt að og kannski var þetta ekki staðfest í mínum huga fyrr en á þingflokksfundi í gær. Svo var hröð atburðarás. Ég þarf að fá að setjast niður með starfsfólkinu,“ sagði Willum Þór. Haukur Holm fréttamaður spurði hann einnig um breytingar á opinberri og einkarekinni heilbrigðisþjónustu.

„Það er svo sérstakt við þá umræðu að við höfum búið við þetta blandaða kerfi og það hefur ekkert verið lagt af. Í nýjum stjórnarsáttmála leggjum við áherslu á að fjárfesta í fólki og lítum svo á að við þurfum alla þekkingu sem er til staðar í kerfinu. Þannig horfi ég á þetta.“

Willum sagði Landspítalann verða móðurskipið í heilbrigðisþjónustunni. 

„Það er mikilvægt að hafa aðbúnað og skipulag í lagi, og við fjármögnum þá þjónustu sem við erum að veita,“ sagði Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra.