Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Tveir drengir flúðu út í skóg undan byssumanninum

29.11.2021 - 09:57
Mynd með færslu
 Mynd: Rúnar Snær Reynisson - RÚV
Karlmaður á fimmtugsaldri, sem lögreglan skaut og særði á Egilsstöðum í ágúst, hefur verið ákærður fyrir tvær tilraunir til manndráps, brot í nánu sambandi og vopnalagabrot. Í ákærunni kemur fram tveir drengir flúðu undan byssumanninum og földu sig í skóg eftir að hann beindi hlaðinni haglabyssu að þeim þar sem þeir sátu í sófa á heimili sínu. Byssumaðurinn er sagður hafa ætlað sér að bana föður þeirra.

Fréttastofa hefur fengið ákæruna afhenta en í henni kemur fram að maðurinn hafi verið undir áhrifum áfengis þetta kvöld.

Hann er meðal annars ákærður fyrir brot í nánu sambandi. Hann er sagður hafa hafa hótað sambýliskonu sinni með því að beina skammbyssu að henni þar sem hún stóð í gætt baðherbergis.   Saksóknari segir að hótunin hafi verið til þess fallin að vekja hjá henni ótta um líf sitt og heilbrigði.

Hann er síðan ákærður fyrir tilraun til manndráps, húsbrot, eignaspjöll og vopnalagabrot. Hann er sagður hafa ruðst inn í íbúðarhús við Dalsel, vopnaður hlaðinni haglabyssu og hlaðinni skammbyssu með þeim ásetningi að bana húsráðanda.  Samkvæmt ákæru hitti hann ekki húsráðanda fyrir þar sem hann hafði yfirgefið húsið skömmu áður. 

Byssumaðurinn er sagður hafa skotið þremur skotum úr haglabyssunni innandyra og valdið þannig spjöllum á skáp í eldhúsi, á ísskáp og spegli. Þá er hann sagður hafa skotið tveimur skotum úr skammbyssunni og valdið með því spjöllum á glerrúðu í eldhúsi og baðherbergishurð.  Hann er sömuleiðis sagður hafa skotið þremur skotum úr haglabyssu á tvo bíla og sex skotum úr skammbyssunni á annan bílinn.

Manninum er gefið að sök að hafa hótað tveimur drengjum í verki með því að beina hlaðinni haglabyssu að þeim þar sem þeir sátu í sófa á heimili sínu við Dalsel. Drengirnir eru sagðir hafa brugðist við með því að flýja út um dyr og síðan inn í nærliggjandi skóg. Saksóknari telur að hótunin hafi verið til þess fallin að vekja hjá drengjunum ótta um líf sitt og heilbrigði.

Hann er síðan ákærður fyrir tilraun til manndráps og brot gegn valdstjórninni. Í ákærunni er hann sagður hafa skotið þremur skotum úr haglabyssu að tveimur lögreglumönnum sem voru í vari við bíl. Telur saksóknari að hann hafi með þessu stofnað lífi og heilsu annarra í augljósan háska á ófyrirleitinn hátt. Í ákærunni er hann síðan sagður hafa gengið að lögreglubíl og ógnað þar lögreglumanni sem leitað hafði vars með hlaðinni haglabyssu.

Drengirnir tveir og faðir þeirra krefja byssumanninn um tæpar átta milljónir í skaða-og misakbætur. Sambýliskona byssumannsins krefur hann um 1,5 milljónir.

Lögregla skaut manninn í kviðinn og gekkst hann undir aðgerð á Landspítalanum. Lögreglan taldi sig hafa fylgt eðlilegu verklagi og þáðu lögregluþjónar sem komu að aðgerðinni sálræna aðstoð. 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV