Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Tugir myrtir í árásum á flóttamannabúðir

Militia members gathered in the center of Bunia, Democratic Republic of the Congo, for a meeting with the UN to discuss disarmament today, June 11, 2003. A French-led peacekeeping force began deploying in earnest on Tuesday in the embattled northeastern Congo town of Bunia, where more than 500 people have been killed in recent attacks.
 Mynd: epa
Vopnuð sveit vígamanna réðst á flóttamannabúðir í Ituri-héraði í norðausturhluta Lýðstjórnarlýðveldisins Kongó á sunnudag og banaði 22 almennum borgurum sem þar höfðu leitað skjóls. Er þetta önnur mannskæða árásin á Ivo-búðirnar, þar sem Kongóbúar á hrakningi hafast við, á innan við viku. 29 voru drepin í fyrri árásinni.

Mambo Bapu Mance, svæðisstjóri Rauða krossins í Ituri-héraði segir í samtali við AFP-fréttastofuna að vopnaðar sveitir samtaka sem kalla sig Samvinnufélag um framþróun Kongós (CODECO) hafi framið þetta illvirki.

ESB fordæmir árásirnar

Josep Borrell Fontelles, utanríkismálastjóri Evrópusambandsins, fordæmir árásina og kallar eftir skjótum aðgerðum til að hafa hendur í hári illvirkjanna. „Evrópusambandið fordæmir þessar nýju, viðurstyggilegu árásir vopnaðra vígamanna á almenna borgara, sérstaklega í ljósi þess að þarna er ráðist á varnarlaust fólk á vergangi, skrifar Borrell á Twitter.

„Ákveðni og festa gagnvart gerendum og stuðningur og réttlæti fyrir þolendur eru forsenda friðar á svæðinu.“

Umsátursástand í gullauðugum héruðum

Ituri-hérað er auðugt af gulli og hafa blóðugar erjur staðið linnulítið þar og í nágrannahéraðinu Norður-Kivu frá því að CODECO-hreyfingin og vígasveitir hennar tóku að hasla sér völl þar árið 2017. Ástandið batnaði ekki þegar hreyfingin klofnaði í fylkingar sem tekist hafa á innbyrðis.

Umsátursástand ríkir í báðum héruðum og her og lögregla fer þar með öll völd í stað kjörinna fulltrúa og borgaralegra embættismanna.