Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Þórólfur fékk örvunarskammt: „Við erum alltaf að læra“

Mynd: RÚV - Bragi Valgeirsson / RÚV - Bragi Valgeirsson
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir fékk örvunarskammt af bóluefninu Moderna í Laugardalshöll í morgun. Hann vonar að þessi skammtur veiti nægilega vörn gegn nýjum afbrigðum veirunnar en það verði tíminn hins vegar að leiða í ljós.

„Ég vona að ég verði vel örvaður og að þetta muni hjálpa okkur. Ég hef fulla trú á því,“ sagði Þórólfur, en hann fékk örvunarbóluefni Moderna en var annars bólusettur með AstraZeneca.

Þórólfur segir omíkrom-afbrigðið ekki hafa greinst á Íslandi.

„Við þurfum að sjá hvort mótefnin sem bóluefnin vekja vernda gegn því afbrigði. Það verður spennandi að sjá það.“

Erum við jafnvel að horfa á fjórða skammt á næstunni?

„Það veit enginn. Við erum bara alltaf að læra. Vonandi virkar þetta vel núna. Svo erum við að sjá hvað þetta virkar lengi. Eins og með þessar tvær sprautur sem við erum búin að fá, menn vissu ekki hvað mótefnin myndu endast lengi. Það kemur í ljós að þau dvína töluvert, en ég vona svo sannarlega að þessi þriðji skammtur hjálpi okkur,“ sagði Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir.