Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Telur breytingar mikla afturför í náttúruvernd

29.11.2021 - 19:58
Formaður Landverndar segir breytingar á umhverfisráðuneytinu vera mikla afturför í náttúruvernd og hann vonar að stjórnvöld átti sig á því sem fyrst. Háskólarektor tekur breytingum á skipulagi skóla með opnum huga, en forseti bandalags listamanna segir fyrstu viðbrögð sjokk, en vonar að breytingar á menningarmálum leiði til góðs.

Umhverfis, - orku- og loftslagsráðuneytið, eins og það heitir núna er komið með orkumálin inn til sín. Formaður Landverndar telur það ekki gott skref. Hann vonar að stjórnvöld átti sig á því sem fyrst.

„Því miður þá rímar það ekki nógu vel. Vissulega þá eru dæmi um það erlendis að orkumál, umhverfismál og loftslagsmál séu felld undir eitt ráðuneyti, en á Íslandi hafa helstu átök í sambandi við náttúruvernd verið í tengslum við orkuvinnslu. Þess vegna hefur það verið mikilvægt fyrir okkur sem erum sérstaklega að hugsa um náttúruverndina að það væri alltaf rödd innan ríkisstjórnarinnar sem hefði þetta sem  megin hlutverk, nú erum við komin með ráðherra sem fer inn í ríkisstjórnina með tvo hatta, einn fyrir orkunýtinguna og einn fyrir náttúruvernd,“ segir Tryggvi Felixson formaður Landverndar.

Þá gagnrýnir Tryggvi að skipulagsmál séu færð frá umhverfisráðuneytinu til innviðaráðuneytisins og þar með séu Skipulagsstofnun og Vegagerðin komin undir sama ráðherra. Skipulagsmál séu hluti af náttúruvernd.

„Okkur finnst þetta mikil afturför fyrir stöðu umhverfis- og náttúruverndar á Íslandi, það sem verið er að gera í þessum sáttmála. Við vonum að það komi fljótt í ljós að þetta sé alls ekki góð leið, þannig að ríkisstjórnin sjái að sér.“

Skólar heyra nú undir tvö ráðuneyti, annars vegar undir mennta- og barnamálaráðuneyti, en háskólar heyra undir vísinda-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneyti. Rektor Háskóla Íslands segir að það verði að koma í ljós hvernig þetta henti og hann mæti því með opnum huga.

„Maður veltir því fyrir sér til dæmis hvar kennaramenntun á heima. Við erum hér með menntavísindasvið og vinnum mjög mikið með öðrum skólastigum, en við tökum þessu bara með opnum huga. Við sjáum það að þarna eru vísindi sett sem fyrsta orð og það er bara tækifæri í því, teljum við og nýi ráðherrann, Áslaug Arna talar um framtíðarráðuneyti svo okkur finnst það spennandi,“ segir Jón Atli Benediktsson rektor Háskóla Íslands.

Menningarmál færast frá menntamálaráðuneytinu og yfir í ferðamála-, viðskipta- og menningarmálaráðuneyti. Forseta Bandalags íslenskra listamanna leist ekki á blikuna fyrst.

„Fyrstu viðbrögð voru kannski  svolítið sjokk, þetta eru kannski tveir þættir sem hafa tekist alltaf svolítið á, viðskiptaþættirnir og menningarþátturinn. En eftir því sem dagurinn hefur liðið og maður hefur lesið sig betur í gegnum þetta þá er greinilegt að það er verið að leysa stóran hluta af hinum gamla mennta- og menningarmálaráðuneyti og finna því farveg í nýrri orðræðu sem er gegnum gangandi  í allri stefnunni um nýsköpun og einhverja framtíðarsýn byggða á skapandi samfélagi. Þannig að ég ætla að leyfa mér að vera bjartsýnn að við séum að hefja eitthvað ferðalag sem leiðir til  góðs,“ segir Erling Jóhaannesson forseti Bandalags íslenskra listamanna.