Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Stjórnarandstaðan heldur aðeins einu formannssæti

29.11.2021 - 15:38
Mynd með færslu
 Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon - RÚV
Formenn þingflokka á Alþingi ræða í dag og á morgun hvernig skipta skuli formennsku og sætum í fastanefndum Alþingis milli flokka. Stjórnarandstaðan fær aðeins formannssæti í einni nefnd en fór með formennsku í þremur nefndum áður. Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segir að mismikil ánægja hafi verið með hvernig tekist hefði til á síðasta kjörtímabili.

Hlutverkaskipan í landsmálunum á nýju kjörtímabili er að taka á sig mynd. Ráðherralistinn birtist í gær sem og hver verður forseti Alþingis. Flokkarnir hafa kosið þingflokksformenn og næsta verkefni er að skipta nefndarsætum milli flokka og ákveða hverjir verða formenn fastanefnda.

Formenn þingflokka á Alþingi ræða í dag og í kvöld saman um það hvernig valdahlutföllin verða í nefndum. Það verður að skýrast fyrir klukkan eitt á miðvikudag þegar næsti þingfundur verður haldinn. Það snýr bæði að skiptingu nefndasætanna sem eru 72 og formennsku. Stjórnarflokkarnir hafa ákveðið að bjóða stjórnarandstöðunni formennsku í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd en skipta formennsku í hinum sjö fastanefndunum á milli stjórnarflokkanna.

Forsætisráðherra var spurð út í þetta eftir ríkisstjórnarfund í dag. „Það var mismikil ánægja með það hvernig það tókst til. Því var þetta ákvörðun okkar núna að leggja það til að stjórnarandstaðan fengi formennsku í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd eingöngu og raunar er það mín skoðun að hún eigi alltaf að hafa þá formennsku.“

Miklar breytingar verða á formennsku í nefndum frá síðasta kjörtímabili. Þrír Sjálfstæðismenn voru nefndarformenn síðasta vetur. Páll Magnússon var formaður allsherjar- og menntamálanefndar og Sigríður Andersen var formaður utanríkismálanefndar. Þau eru bæði hætt á þingi. Óli Björn Kárason var formaður efnahags- og viðskiptanefndar en er nú orðinn þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins. Lilja Rafney Magnúsdóttir, Vinstri-grænum, var formaður atvinnuveganefndar og Framsóknarmaðurinn Willum Þór Þórsson, sem nú er orðinn heilbrigðisráðherra, var formaður fjárlaganefndar.

Stjórnarandstaðan fékk formennsku í þremur nefndum í sinn hlut. Píratinn Jón Þór Ólafsson, sem nú er hættur á þingi, var formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar. Bergþór Ólason, Miðflokki, var formaður umhverfis- og samgöngunefndar og Samfylkingarkonan Helga Vala Helgadóttir var formaður velferðarnefndar. Nú stendur aðeins formennska í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd eftir stjórnarandstöðumegin.