Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Róttæk uppstokkun sem þarf að skýra betur

„Þessi stjórnarsáttmáli er kannski til marks um nýja tíma í þeim skilningi að hugmyndafræði nýfrjálshyggju og niðurskurðar virðist vera dauð í augnablikinu,“ segir Ólafur Þ. Harðarson prófessor í stjórnmálafræði um stjórnarsáttmála nýrrar ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur. Merkilegust þykir honum efnahagsstefnan til að bregðast við uppsöfnuðum skuldum vegna kórónuveirufaraldursins.

Ólafur segir algjörlega skýrt í stjórnarsáttmálanum hvernig ríkisstjórnin ætlar að bregaðst við þeim skuldum sem hefur verið safnað upp í COVID. Nú verði farið öðruvísi að en eftir hrunið 2008. „Þá var farið í niðurskurð, þar var farið í aðgerðir sem oft eru kenndar við nýfrjálshyggju. Það er ekki uppi á teningnum núna. Menn segja að þeir ætli að vaxa upp úr kreppunni,“ segir Ólafur. Hann bætir því við að það líti út fyrir að stjórnvöld ætli að reka ríkissjóð með halla næstu ár. 

Sögulega miklar breytingar

Í sögulegu samhengi segir Ólafur breytingarnar á ráðuneytum og tilfærslur á málaflokkum á milli ráðuneyta athyglisverðar, og í miklu meiri mæli en undanfarnar stjórnir hafa gert. Fram til ársins 2011 var neglt niður í lögum um íslenska stjórnarráðið hver ráðuneytin ættu að vera, hvað þau hétu og hver verkefni þeirra væru. Endurskoðun var gerð á lögunum árið 2011 í samræmi við niðurstöður skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis. „Hugsunin var sú að það væri eðlilegt að framkvæmdavaldið fengi að ráða nokkuð miklu um það sjálft hvernig það vildi skipuleggja sig,“ segir Ólafur og bætir því við að þetta form hafi lengi verið þekkt í Danmörku. Hann segir það gott að þessi möguleiki sé fyrir hendi, en breytingarnar nú séu mjög miklar og uppstokkunin róttæk. „Stjórnin þarf að útskýra af hverju hún vill ganga svona langt,“ segir Ólafur.