Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Maður skotinn til bana í Huddinge við Stokkhólm

29.11.2021 - 03:13
Mynd með færslu
 Mynd: SVT
Hálffimmtugur karlmaður var í gærkvöld skotinn til bana í íbúðahverfi í sænska bænum Huddinge, skammt suður af Stokkhólmi. Lögregla var kölluð á vettvang í Huddinge um klukkan hálf ellefu í gær. Þar fann hún manninn liggjandi í blóði sínu og lést hann á staðnum skömmu síðar. Hefur lögregla síðan yfirheyrt vitni og gengið í hús í nágrenninu í leit að fleiri vitnum en tæknideild lögreglu rannsakar vettvang glæpsins.

Carina Skagerlind, upplýsingafulltrúi lögreglunnar, segir að nokkur vitni hafi þegar komið fram og töluverðra upplýsinga hafa verið aflað. Hún geti þó ekki tjáð sig um eðli eða innihald þeirra upplýsinga enn sem komi er. Rannsókn morðsins sé á byrjunarstigi og morðingjans leitað.

Maðurinn var skotinn á götu úti í íbúðahverfi í miðbæ Huddinge, rúmlega 100.000 manna bæ við útjaðar Stokkhólms. Enginn hefur verið handtekinn vegna morðsins en víðtæk leit stóð fram á nótt, sem þyrlur, hundar og fjöldi lögreglumanna tóku þátt í.