Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Líkur á að hlaupi úr Grímsvötnum næstu daga

29.11.2021 - 12:18
Skáli og mælitæki Jöklarannsóknarfélags Íslands ´á Grímsfjalli. Grímsvötn í baksýn. Sólsetur. Júní 20250.
 Mynd: Lára Ómarsdóttir - RÚV
Enn er fylgst grannt með hreyfingum íshellunnar í Grímsvötnum, sem nú hefur sigið um rúma fjóra metra. Rennsli er farið að aukast lítillega í Gígjukvísl en Bjarki Kaldalóns Friis, náttúruvársérfræðingur hjá Veðurstofu Íslands segir það sé aðeins tímaspursmál hvenær fari að hlaupa undan jöklinum.

Íshellan gæti sigið um hundrað metra

„Það má alveg búast við að sigið í Grímsvötnum sjálfum geti verið allt að hundrað metrar. Svo það er búið að síga um fjóra og hálfan metra af þessum kannski 100 metrum, það er auðvitað lítill hluti enn þá“ segir Bjarki.

„Það mældist einn skjálfti þarna í morgun uppá 1,6 rétt norður af Grímsvötnum, en það er samt ekki byrjuð að mælast nein aukning í skjálftavirkni“ segir Bjarki. Þá sé ekki víst að skjálftinn tengist hreyfingunum við Grímsvötn.

Gæti hafist hlaup í dag - eða næstu daga

„Auðvitað er vatnið á leið niður og kemur fram einhvern tímann þarna á mælunum okkar. Það var talað um einn til tvo daga þarna í síðustu viku, en það auðvitað stenst ekki neitt“ segir Bjarki. „En það er talað áfram um bara daga í þetta. Vatnið gæti komið niður í dag en það getur komið niður eftir nokkra daga, við erum ekki viss“.

Þá bætir hann við að erfitt sé fyrir þau að bera mælingar nú saman við fyrri hlaup, þar sem áður hafi ekki verið jafn nákvæmar mælingar á jarðhræringum á svæðinu.