Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Sjálfstæðismenn í Suðurkjördæmi vonsviknir

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Kristinn Þeyr Magnússon
Sjálfstæðismenn í Suðurkjördæmi hafa lýst yfir furðu og gríðarlegum vonbrigðum með skipan ráðherra í nýrri ríkisstjórn. Þá segja þau Guðrúnu Hafsteinsdóttur, forystumann flokksins í Suðurkjördæmi, hafa verið hundsaða.

„Vægi landsbyggðarinnar er vægast sagt fyrir borð borið með úthlutun ráðherrastóla í komandi ríkisstjórn. Sjálfstæðisflokkurinn gefur sig út fyrir að vera flokkur allra landsmanna og ætti að sýna það í gjörðum sínum“ segir í ályktun frá flokksmönnum.

„Það að veita Guðrúnu Hafsteinsdóttur ráðuneyti einungis hluta kjörtímabilsins er eins og blaut tuska í andlitið á þeim þúsundum kjósenda Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi og öllum þeim hundruðum sjálfboðaliða sem tóku þátt í að tryggja glæst gengi flokksins“ segja flokksmenn og krefja formann Sjálfstæðisflokksins, Bjarna Benediktsson, um skýringar á þessari ákvörðun.

Ályktunin er undirrituð af stjórnarmönnum úr fulltrúaráðum sjálfstæðisfélaga í Reykjanesbæ, Vestmannaeyjum, Árnessýslu, Austur- Skaftafellssýslu, Gullbringusýslu og í Grindavík.