Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Leynist páskaegg fyrir innvígða áhorfendur í Ófærð?

Mynd: Ófærð / RÚV

Leynist páskaegg fyrir innvígða áhorfendur í Ófærð?

28.11.2021 - 21:50

Höfundar

Getur það verið að vísað sé til einnar eftirminnilegustu senu íslenskrar kvikmyndasögu í sjöunda þætti Ófærðar? Gestir hlaðvarpsins Með Ófærð á heilanum telja það ekki ólíklegt.

Athugið að færslan gæti spillt fyrir áhorfendum sem ekki hafa séð sjöunda þátt Ófærðar 3.

Stefán Pálsson, sagnfræðingur, og Diljá Ámundadóttir, varaborgarfulltrúi, ræða við Snærós Sindradóttur um helstu hræringar í sjöunda þætti Ófærðar í hlaðvarpinu Með Ófærð á heilanum.

Andri Ólafsson lögreglumaður fær mikilvægar upplýsingar eftir vafasömum leiðum undir lok þáttarins, þar sem hann gerist mögulega brotlegur við lög. Þær veiðir hann upp úr ólögráða stúlku í símtali eftir fund sem hann á með Trausta, sem Björn Hlynur Haraldsson leikur, og öðrum lögreglumanni, sem leikinn er af Birni Jörundi Friðbjörnssyni. Eins og margir muna eflaust eftir þá fór Björn með hlutverk í kvikmyndinni Englum alheimsins, sem kom út árið 2000.

„Þeir eru búnir að vera þarna á Holtinu, í koníaksstofunni, sem er ógeðslega spes. Mér fannst eins og hann Björn Jörundur væri bara karakterinn sinn í Englum alheimsins,“ segir Diljá. „Það var einhvern veginn uppstillingin á þeim og hreyfingarnar.“

Stefán tekur undir það. „Ég einmitt velti því fyrir mér hvort þetta hafi viljandi verið nikk til þeirrar senu í Englunum. “ Þetta gæti því verið páskaegg fyrir „innvígða íslenska áhorfendur.“

Úr þriðju þáttaröð ófærðar.
 Mynd: Ófærð - RÚV

Hér má bera saman atriðin tvö, í Ófærð annars vegar og í Englum alheimsins hins vegar, sem þó er vert að taka fram að gerist á Grillinu á Hótel Sögu.

Mynd með færslu
 Mynd: Englar alheimsins - Íslenska kvikmyndasamsteypan
Úr Englum alheimsins.

Með Ófærð á heilanum er hlaðvarpsþáttaröð í umsjón Snærósar Sindradóttur þar sem farið er ofan í saumana á því hvað kemur fram í hverjum þætti Ófærðar og hvaða kenningar eru uppi hverju sinni. Þættina má finna á öllum helstu hlaðvarpsveitum en einnig í spilara RÚV, strax á eftir frumsýningu Ófærðar hvert sunnudagskvöld á RÚV. 

Tengdar fréttir

Sjónvarp

Stranglega bannað að draga undirmenn á tálar

Sjónvarp

Baby Lars ekki allur þar sem hann er séður

Sjónvarp

Löngu kominn tími á að Andri upplifi rómantík

Sjónvarp

Dulin hómófóbía áhorfenda mögulega að villa fyrir þeim