Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

FH einu stigi frá toppsætinu eftir sigur á Aftureldingu

Mynd með færslu
 Mynd: Mummi Lú - RÚV

FH einu stigi frá toppsætinu eftir sigur á Aftureldingu

28.11.2021 - 21:43
Fjórir leikir voru í Olís deild karla í handbolta í kvöld. Í Mosfellsbæ vann FH fimm marka sigur á Aftureldingu sem lyftir þeim upp í annað sæti deildarinnar.

 

 

Jafnræði var með liðunum stóran hluta fyrri hálfleiks og heimamenn leiddu 10-9 þegar tíu mín­út­ur voru eft­ir af fyrri hálfleik. FH-ingar settu í annan gír lokakafla hálfleiksins og leiddu með þremur mörkum í hálfleik 14-11. Heimamenn voru svo ekki líklegir til að ógna forystu gestanna að neinu viti í seinni hálfleiknum og öruggur fimm marka sigur FH niðurstaðan 31-26.

Phil Döhler var öflugur í marki FH og varði 14 skot. Egill Magnússon var markahæstur í liði FH með 12 mörk og Ásbjörn Friðriksson kom þar á eftir með 11. Markahæstur í liði Aftureldingar var Guðmundur Bragi Ástþórsson með tíu mörk. FH er nú í öðru sæti deildarinnar með 15 stig einu stigi minna en grannar þeirra Haukar á toppnum. Afturelding er í 6. sæti með tíu stig.

Selfoss lagði KA og Grótta valtaði yfir ÍBV

Á Selfossi unnu heimamenn KA 25-24. Eftir góða byrjun Selfyssinga tókst KA að vinna sig inn í leikinn. Í hálfleik munaði tveimur mörkum á liðunum, 12-10 Selfossi í vil. Selfyssingar skoruðu fyrstu þrjú mörkin í síðari hálfleiknum og voru þannig komnir fimm mörkum yfir. Áfram héldu Selfyssingar svo að breikka bilið og 18-11 var staðan eftir 38. mínútur. En þegar þrjár mínútur voru til leiksloka tókst KA að jafna metin í fyrsta sinn í leiknum, 21-21. Nær komust Norðanmenn ekki og Selfoss vann með eins marks mun, 25-24. Selfoss er nú komið upp í 7. sætið en KA er áfram í því tíunda.

Á Seltjarnarnesi vann Grótta afar sannfærandi tíu marka sigur á ÍBV 36-26. Gestunum tókst aðeins að gera tíu mörk í fyrri hálfleik og staðan í  hálfleik var 20-10 Gróttu í vil. Eyjamenn náðu að minnka muninn í sex mörk þegar tíu mínútu lifðu leiks. Gróttumenn léku þó betur á lokakaflanum og endurheimtu tíu marka forskotið fyrir leikslok og lokatölur 36-26 fyrir Gróttu. 

Grótta fer með sigr­in­um upp í 9. sæti deild­ar­inn­ar með sjö stig en ÍBV er nú í fjórða sætinu með með 14 stig. Þá gerðu Stjarnan og Fram jafntefli í Garðabæ 31-31 og Stjarnan er nú í fimmta sæti deildarinnar með 13 stig en Fram í því áttunda með níu stig.