„Ég verð að segja þér að þau eru ekki foreldrar þínir“

Mynd: Axel Rúnar Guðmundsson / Aðsent

„Ég verð að segja þér að þau eru ekki foreldrar þínir“

28.11.2021 - 09:00

Höfundar

Á sínum yngri árum var Axel Rúnar Guðmundsson sá eini í sveitinni sem vissi ekki að hann væri ættleiddur. Hann var lagður í einelti, leið illa á heimilinu og glímdi við sjálfsvígshugsanir en með hjálp séra Róberts Jack fann hann sig í fótbolta og lék á tímabili með Manchester United. Eftir meiðsli missti hann stjórn á lífinu, keyrði út í skurð og um tíma var honum vart hugað líf. En Axel sneri blaðinu við.

Axel Rúnar Guðmundsson, fyrrum bóndi sem búsettur er í Valdarási í Vestur Húnavatnssýslu hefur sannarlega ýmsa fjöruna sopið um ævina. Hann er ættleiddur en komst ekki að því fyrr en hann var kominn á unglingsaldur. Hann var lagður í einelti sem barn, hefur glímt við Bakkus og sjálfsvígshugsanir en einnig skorað mark fyrir Manchester United. Axel kíkti í Sunnudagssögur til Hrafnhildar Halldórsdóttur þar sem hann sagði frá uppvextinum í sveitinni, leyndarmálinu um ættleiðinguna og eineltinu í grunnskóla sem síðar leiddi til þess að hann reyndi að taka sitt eigið líf. Einnig ræddi Axel um fótboltann, séra Róbert Jack sem var mikill örlagavaldur í hans lífi og Guðna Ágústsson sem hafði þau áhrif á Axel að hann ákvað að koma út með sögu sína.

„Ég verð að segja þér að þau eru ekki foreldrar þínir“

Uppeldisforeldrar Axels voru þau Hulda Ragnarsdóttir og Guðmundur Axelsson. Það var svo vorið 1977, þegar Axel var um fermingu, sem Teitur Gylfason vinnumaður á heimilinu ákvað að segja honum foreldrar hans væru honum alls óskyldir. Drenginn hafði þá grunað um hríð að fólkið hans hefði eitthvað að fela og þarna fékk hann það staðfest. „Við vorum í girðingarvinnu strákarnir og þá segir hann við mig: Ég verð að segja þér svolítið, þó það muni hafa slæmar afleiðingar og ég verð sennilega sendur suður með rútunni á morgun. En ég verð að segja þér að þau eru ekki foreldrar þínir,“ rifjar Axel upp. Teitur bætti því svo við að honum hefði verið tjáð að hann mætti alls ekki segja drengnum frá þessu en hann hafi bara ekki getað setið á sér.

Var skipað að hætta þessu væli

Þetta var sannarlega áfall fyrir Axel en grunsemdirnar höfðu vaknað þegar hann var aðeins sjö ára. Í fyrstu frímínútum hans í skóla var sagt við hann: „Mamma þín er ekki mamma þín og pabbi þinn er ekki pabbi þinn,“ segir Axel.

Á þessum tíma var hann ungur og var ekki viss hvernig hann ætti að bregðast við svo hann bara felldi tár. „Ég skildi ekki hvers vegna krakkarnir voru að segja þetta, ég fór bara í vörn og gat ekki sagt neitt. Held ég hafi bara farið að gráta.“

En hann fékk enga huggun. „Kennarinn var búinn að hrista mig til, segja mér að hætta þessu væli og leika með krökkunum. Þetta var mjög erfitt og byrjaði strax þarna, blessaður kvíðinn og strax á öðrum degi vildi ég ekki fara í skólann,“ segir Axel.

Horfði á sig í spegli og grét

Nokkru síðar fór hann að velta því fyrir sér hvað faðir hans og bróðursonur væru líkir hvorum öðrum en Axel frábrugðinn þeim. „Ég fór í myndaalbúm, náði í mynd af pabba og fór svo fyrir framan spegilinn inni á baði. Horfði í spegilmynd mína, horfði svo á myndina og fór bara að gráta,“ segir hann. „Ég hugsaði: Krakkarnir eru að segja satt. Þetta var mikið niðurbrot.“

En hann gat ekki rætt þessar áhyggjur sínar við neinn. „Þetta fór í svarta kassann, ég byrjaði snemma að safna í hann. Ef það voru erfiðleikar, eða eitthvað, var ekki minnst á það og mátti alls ekki bera svona á borð. Og alls ekki út fyrir heimilið,“ segir hann.

Skar sig með brotnu glasi

Skólagangan var honum erfið af ýmsum ástæðum. Hann minnist þess að hafa verið reglulega tekinn og hristur og honum var hent inn í fatakompu þar sem hann mátti dúsa löngum stundum, því hann þótti væla of mikið. „Þetta gerðist nokkrum sinnum. Mér var sagt bara að vera til friðs og hætta þessu endalausa væli,“ segir Axel. Þegar hann var á tólfta ári fór hann að skaða sig.

„Þá var mjög erfið vika. Ég hleyp úr tómstundaherbergi inn ganginn á heimavistinni og inn í herbergi þar sem ég var og fæ mér vatnsglas. Nema ég missi glasið sem brotnar í vaskinum,“ segir Axel. Þá fékk hann hræðilega hugmynd. „Það gerðist eitthvað. Þetta var sennilega örvænting og ákall á hjálp, en ég sker mig á púls á vinstri hendi. Það fossar blóð úti um allt,“ segir Axel sem enn er með mikið ör eftir atvikið.

Fyrsti fullorðni maðurinn sem hann gat treyst

Skólastjórinn sá hvað gerðist og varð bylt við. Hann setti handklæði utan um handlegg drengsins og sá til þess að hann kæmist undir læknishendur. Axel grátbað strax um að foreldrar hans yrðu ekki látnir vita.

Kári Stefánsson hefur samband við Róbert Jack

Læknirinn, sem Axel hefur áttað sig á að hafi líklega verið Kári Stefánsson sjálfur, brá á það ráð að hringja í séra Róbert Jack sem þjónaði í sveitinni. Hann kom og keyrði Axel heim, en fyrst ræddi hann málin lengi við hann. „Þetta var svo skrýtið. Þetta var fyrsti fullorðni maðurinn sem ég fann að ég gæti treyst. Það var svo skrýtið að fá þessa góðu tilfinningu fyrir honum, hann var svo rólegur. Ekki að skamma mig heldur að veita mér ráð.“

Róbert útskýrði fyrir Axel að þetta mætti hann ekki gera því aðeins Guð mætti taka þessa ákvörðun. Hann bætti því við að ef hann færi núna til Guðs þá væri hann að skilja eftir vandamálin og erfiðleikana. „Þá þurfa aðrir að leysa úr því og aðrir verða sorgmæddir,“ rifjar Axel upp. Hann sagði honum líka dæmisögu af Manchester United og upp frá þeim degi var Axel eitilharður stuðningsmaður liðsins sem átti eftir að koma meira við sögu í hans lífi síðar.

Sögðu að það væri ekki nokkur friður fyrir þessum presti

Svo héldu þeir heim til Axels, sem fann að hann var kvíðinn fyrir því að mæta foreldrunum. Róbert ráðlagði honum að fara inn og hvíla sig en kvaðst sjálfur myndu ræða við þá. Ekki var þó eins vel tekið í það og sérann hafði vonað. „Hann átti mjög alvarlegt spjall við þau en í framhaldinu var presturinn tekinn út af sakramentinu hjá gömlu hjónunum. Þau sögðu að það væri aldrei nokkur friður fyrir þessum presti, hann léti strákinn aldrei vera. Þannig var það öll árin fram undan.“

Það ríkti mikil þöggun á heimilinu, sérstaklega í kringum fósturföður Axels, sem hann segir oft hafa tekið hressilega á sér. Hann upplifði ekki mikla snertingu en var tjáð að hann væri duglegur þegar hann hjálpaði til.

Fjóla frænka var konan sem hafði fætt hann

Fjórtán ára gamall komst Axel að því að blóðmóðir hans var í raun frænka hans, Fjóla Ingþórsdóttir, en hún og fósturmóðir hans voru þremenningar. Blóðföðurnum kynntist Axel hins vegar ekki fyrr en hann var orðinn fimmtugur. Fósturforeldrar hans eru látnir en hann á enn í góðu sambandi við báða blóðforeldra sína.

Komu seint í skírnina eftir að hafa áttað sig á að blóðmóðirin væri á svæðinu

Axel ræddi aðeins einu sinni við foreldra sína um þá vitneskju að hann væri ættleiddur og það var árið 1997 þegar Nína dóttir hans var nýfædd. „Ég bið þau að hitta mig og þetta var rosalegt, ég var með bullandi hjartslátt,“ rifjar hann upp. Axel útskýrir fyrir þeim að hann vilji að Fjóla móðir sín væri boðin í veisluna því hann kæri sig ekki um að dóttirin alist upp við feluleik. Þau tóku því ekki vel. „Þau urðu svört og bara: Við skiljum ekki tilganginn með þessu og af hverju þú vilt vera með þessi leiðindi. Við gerðum þetta bara því við héldum að það væri þér fyrir bestu.“ Hann sagði þeim þá að hann vildi gjarnan að þau kæmu líka í skírnina, sem var daginn eftir. Þau komu ekki fyrr en seint, en komu þó. „Við erum komin með barnið upp að altarinu og þau eru ekki komin í kirkjuna. En þá heyrðist brakið, hurðin opnaðist og þau settust á aftasta bekk. Þau komu.“

Mynd með færslu
 Mynd: Axel Rúnar Guðmundsson - Aðsend
Axel Rúnar er enn eldheitur stuðningsmaður Manchester United og minnist þess með hlýju að vera á vellinum með Róbert í stúkunni.

Man leðurlyktina þegar hann opnaði pakkann

Bestu stundir Axels í æsku voru þegar hann lék sér með bolta og það átti sannarlega eftir að koma í ljós að hann hafði mikla hæfileika á því sviði. Fyrst vafði hann saman sokkum til að búa til bolta en fékk svo síðar sinn fyrsta leðurbolta frá fósturömmu sinni, þá níu ára gamall. Þetta var besta gjöf sem hann hafði nokkurn tímann fengið. „Ég man leðurlyktina þegar ég opnaði pakkann. Ég var svo snortinn. Þessi bolti var mikið notaður og var í raun minn besti vinur í mörg ár. Lengst af í mínu lífi hef ég sótt styrk í boltann.“

Leið eins og það væri verið að stinga vin sinn

Það var svo að vori til þegar Axel hafði að venju aðstoðað við sauðburð, sem hann ákvað að leika sér aðeins með boltann sinn. „Það var atriði sem ég átti lengi erfitt með að fyrirgefa,“ rifjar hann upp.

Þá sá fósturfaðir hans til hans með boltann og kom út, „alveg brjálaður og sagði að það væri ekki búinn að brynna,“ segir Axel. Hann hafi því næst tekið af honum boltann. „Hann tók upp vasahnífinn og stakk á hann. Mér leið eins og það væri verið að stinga vin minn eða hestinn minn, þetta var ofboðslega sárt,“ segir Axel.

Hann sótti laskaðan boltann úr ruslinu og lagaði hann með hjálp fósturömmu sinnar. „Ég náði að bæta slönguna í boltanum með hjálp ömmu og hún hjálpaði mér að suma hann saman. Það breyttist lögunin á honum,“ segir Axel sem hélt áfram að leika sér með boltann, en passaði líka að hann væri öruggur. „Ég prílaði alltaf upp hlöðuvegginn og faldi hann undir súð þegar ég var hættur að leika mér með hann.

Róbert Jack hélt áfram að vera í sambandi við Axel og hvatti hann áfram í fótboltanum. Hann minnti Axel á að á fótboltavellinum væri hann alltaf öruggur og það virkaði. „Þrátt fyrir að ég hafi verið greindur með kvíðaröskun og verið þarna í ótta og kvíða var ég aldrei hræddur inni á vellinum. Það var bara mitt frelsi að fá að hlaupa og gera mitt besta,“ segir hann. „Ég lagði mig hundrað og tíu prósent fram.“

Öskruðu á íþróttakennarann Jónínu Ben og hentu henni út

Axel fór í Reykjaskóla á heimavist þar sem hann kynntist mönnum sem enn eru vinir hans í dag, meðal annars Skildi Sigurjónssyni, sem gjarnan er kenndur við rekstur sinn á Herrafataverzlun Kormáks & Skjaldar.

Jónína Ben heitin var íþróttakennari þar og tók Axel að nokkru leyti að sér. Hún sá að drengurinn var efnilegur og vildi að hann kæmist suður að æfa íþróttir af meiri móð. Hún hlustaði ekki á Axel þegar hann sagði að það væri óhyggilegt að hún talaði við foreldra hans og hélt með þeim fund, sem fór ekki vel. „Það fór allt gjörsamlega í háaloft, það var staðið á öskrinu og henni hent út,“ segir hann.

Mamma hringdi grátandi svo hann slúttaði öllu og fór norður

Róbert Jack, sem reyndist Axel betur en nokkur annar, kom til Íslands frá heimalandinu Skotlandi til að þjálfa Val í knattspyrnu. Hann ílengist hér á landi og ákvað að fara í háskóla að læra til prests. Hann sá strax að Axel væri með efnilegri drengjum og með þá trú í farteskinu fór Axel til Reykjavíkur og lék í einn vetur með öðrum flokki Vals. Það var mikið ævintýri. „Ég fór í keppnisferðalag til Færeyja og skoraði mark. Valsmenn redduðu mér vinnu og ég var að byrja að finna mig,“ rifjar hann upp. En ævintýrið tók fyrr enda en Axel hafði vonað.  „Þá kemur hringingin, mamma hringir grátandi. Heyskapurinn er að byrja og pabbi alveg svartur og hún var svo hrædd. Stundum er svo skrýtið að stundum flýr maður. Þegar maður þekkir ekkert nema sársauka og kvíða, þá heldur hann svo fast um mann og maður sogast til baka inn í sársaukann. Ég slúttaði öllu og fór norður.“

„Get ekki lýst því hvernig var að hlaupa í rauðu Manchester treyjunni“

En Róbert Jack gafst ekki upp og hann tjáði Axel að hann ætti að kynnast atvinnumönnum í fótbolta á heimsmælikvarða. Hann skrifaði vini sínum Matt Busby hjá Manchester United að hann vildi að eitt sóknarbarn sitt fengi tækifæri til að koma og spila með þeim. Skömmu síðar hringir hann uppveðraður í Axel og tilkynnir honum að þeir séu á leið á Old Trafford.

Hugmyndin fór ekki vel í foreldrana en saman héldu þeir samt út. Axel hitti þá margar af sínum helstu hetjum og fékk að spila með liðinu í æfingaleik. „Þjálfarinn les upp hvaða sextán eigi að mæta daginn eftir og kemur inn í búningsklefann. Það var númer níu, Gudmundsson. Ég ætlaði ekki að trúa þessu,“ segir Axel hreykinn. „Ég get ekki lýst því hvernig það var að hlaupa í rauðu Manchester treyjunni númer níu með leikmönnum inn á völlinn,“ segir Axel. Sá leikur mun ekki gleymast því honum tókst að skora. „Ég sé boltann koma koma, er kominn inn í vítateiginn og ég skutla mér fram til að skalla honum. Ligg bara í grasinu og svo koma þessar stórstjörnur og rífa mig á fætur og bara: great goal! Þetta var ólýsanlegt. Mín stærsta stund í lífinu fyrir utan það að vera viðstaddur fæðingu dætra minna.“

Skildi og fór að drekka stíft eftir meiðslin

United bauð Axel æfingasamning með varaliðinu en Róbert fór með hann til Celtic, þar sem Axel lék nokkra leiki og skoraði mörk. Róbert var yfir sig stoltur. Svo héldu þeir til Frakklands að hitta Albert Guðmundsson, þar sem Axel fékk samning í eitt ár. En svo lenti hann í alvarlegum meiðslum og draumurinn var úti. „Róbert fer með mig til landlæknis og þá fékk ég dóminn að ég myndi ekki spila á hæsta leveli. Þetta var mikið niðurbrot.“

Axel missti tökin og fór að drekka stíft. Hann skildi við fyrrverandi unnustu sína og notaði áfengi til að deyfa sig. Hann hélt norður þar sem hann ætlaði að slaka á en svo lenti hann í slæmu bílslysi haustið 1994. „Ég var búinn að vera í mikilli óreglu og það hafði varla runnið af mér í viku. Ég missi stjórn á bíl á leið á Skagaströnd um miðnætti og finnst ekki fyrr en sjö um morguninn.“

Missti meðvitund og sá sýnir

Og Axel hélt hann væri að upplifa sitt síðasta. „Þarna hélt ég að ég myndi deyja,“ segir hann. Hann var fastur í bílnum um hríð en náði svo að skríða út og kom sér út í skurð. Þar kallaði hann á hjálp og bað til Guðs og svo varð hann reiður. Þá missti hann meðvitund og fór að sjá sýnir. „Mér fannst ég sjá svona göng, upplýst göng. Mér fannst ég vera að rölta á móti miklu ljósi, upplýst stjarna. En ég sé í móðu fullt af einstaklingum,“ segir hann. Tveir af þessum móðukenndu einstaklingum koma upp að honum og segja honum að fara til baka, „ég eigi ekki að koma þarna núna,“ segir hann. „Annar þeirra er frændi minn sem ég hitti reyndar aldrei. Var dáinn áður en ég fæddist,“ segir hann.

Loks kemur lögreglumaður, sem var á leið til Reykjavíkur, og verður var við bílinn. Farið er með Axel á Blönduós og honum flogið þaðan til Reykjavíkur. Í ljós kom að mjaðmaskálin var brotin og hann fékk sterk verkjalyf. Í desember sama ár fór Axel svo inn á Vog og hætti að drekka.

Sá hempuklæddan mann ganga á undan Guðna Ágústssyni

Í maí var dóttir Axels svo stödd á viðburði þar sem hún hitti Guðna Ágústsson og gaf sig á tal við hann. Einhvern veginn barst faðir hennar í tal og hún tjáði Guðna að honum liði ekki sem best. Guðni varð áhugasamur um söguna og hún bauð Axel í morgunkaffi. Daginn eftir, þar sem Axel sat með grautinn sinn og kaffibolla, sér hann bíl renna í hlað. Hann verður hissa þegar hann sér Guðna sjálfan stíga út úr bílnum en ekki síður þegar hann sér hempuklæddan mann með hatt ganga á undan. Sá hverfur þegar hann gengur upp tröppurnar. „Guðni heilsar með fréttir og segir að andi séra Róberts Jack hafi leitt sig í Valdarás til að hitta mig,“ segir Axel sem taldi strax líklegt séra Róbert hafi fylgt Guðna upp tröppurnar. Sá síðarnefndi veitti Axel innblástur til að opna svarta kassann og segja frá leyndarmálunum sem hann hafði ætlað að taka með sér í gröfina. „Skilaðu skömminni sagði Guðni Ágústsson og komdu með, þetta er þín reynslusaga og þú getur hjálpað öðrum.“

Og Axel ákvað að gera það. „Stefnan mín er að upplifa mig sem frjálsan einstakling og losna við reiði. Geta stigið inn í framtíðina sem frjáls maður,“ segir hann að lokum. „Ég á frábæra fjölskyldu og konu og góða vini og verð ævinlega þakklátur.“

Rætt var við Axel Rúnar Guðmundsson í Sunnudagssögum á Rás 2. Hér má hlýða á þáttinn í heild sinni.

Myndin efst í greininni er af Axel Rúnari og séra Róbert Jack vini hans.