Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Blendnar tilfinningar ráðherra Sjálfstæðisflokksins

Mynd: Viðar Hákon Gíslason / RÚV
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, verðandi utanríkisráðherra, kveðst spennt fyrir nýjum verkum. „Ég ákvað það fyrir nokkrum árum að ef ég fengi áfram tækifæri til að vera ráðherra í framtíðinni yrði ég í raun alltaf nýsköpunarráðherra, óháð því í hvaða ráðuneyti ég færi,“ sagði hún eftir þingflokksfund Sjálfstæðisflokksins

Guðlaugur Þór Þórðarson, fráfarandi utanríkisráðherra og verðandi ráðherra umhverfis- og loftslagsmála, segist sjá eftir starfsfólkinu og verkefnunum í utanríkisráðuneytinu. Umhverfis-, loftslags- og orkumálin séu þó auðvitað vettvangur sem sé ótrúlega spennandi.

Mynd: Viðar Hákon Gíslason / RÚV

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir tekur við embætti nýsköpunar-, iðnaðar- og háskólamálaráðherra, eftir að hafa gegnt embætti dómsmálaráðherra undanfarin ár. Hún segir ákvörðunina um að færa hana um embætti hafa komið á óvart að einhverju leyti, en hún sé mjög spennt. „Þetta er svona framtíðarráðuneyti þar sem eru mikil tækifæri að vaxa til velsældar eins og er tekið fram í þessum stjórnarsáttmála.“

Mynd: Viðar Hákon Gíslason / RÚV

Jón Gunnarsson hefur kjörtímabilið í embætti dómsmálaráðherra. Hann telur sig vera ágætlega að því kominn, með sterkt umboð úr sínu kjördæmi og mikla og langa þingreynslu. 

Mynd: Viðar Hákon Gíslason / RÚV

Samkvæmt Bjarna Benediktssyni, formanni Sjálfstæðisflokksins, tekur Guðrún Hafsteinsdóttir við embætti dómsmálaráðherra eftir um átján mánuði. „Ég skal alveg viðurkenna að það eru blendnar tilfinningar. Það voru miklar væntingar gerðar til mín í mínu kjördæmi og við vorum að vonast til þess að suðurkjördæmi myndi eiga ráðherra frá fyrsta degi í þessari ríkisstjórn, það er ekki raunin. Ég verð auðvitað að segja það að það eru ákveðin vonbrigði.“

Mynd: Viðar Hákon Gíslason / RÚV