Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Billjóna tekjutap í ferðaþjónustunni vegna COVID-19

epa09602070 A sign recommends the use of COVID-19 surveillance app PeduliLindungi at the beach entrance in Kuta, Bali, Indonesia, 25 November 2021. To minimize the risks of COVID-19 transmission, the Bali government will be limiting foreign tourists for the upcoming Christmas and New Year holiday.  EPA-EFE/MADE NAGI
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Ferðamálastofnun Sameinuðu þjóðanna áætlar að ferðaþjónustufyrirtæki heimsins verði af tekjum upp á tvær billjónir Bandaríkjadala, um 260 billjónir íslenskra króna, á þessu ári vegna heimsfaraldurs kórónuveirunnar. Þetta er nokkurn veginn sama tekjutap og ferðaþjónustan varð fyrir af völdum farsóttarinnar á síðasta ári.

Í skýrslu stofnunarinnar, sem er með höfuðstöðvar sínar í Madríd á Spáni, segir að batinn í ferðageiranum sé hvort tveggja hægur og ótraustur. Skýrslan kemur út í sama mund og Evrópuríki glíma við mikla fjölgun smita og nýtt og bráðsmitandi omicron-afbrigði kórónaveirunnar verður til þess að fjöldi ríkja lokar landamærum sínum fyrir erlendum gestum á ný, skömmu eftir að þau voru opnuð.

Sérfræðingar stofnunarinnar áætla að alþjóðlegir ferðalangar verði 70 - 75 prósentum færri á þessu ári en árið 2019, rétt eins og í fyrra, eða 375 - 450 milljónir í stað 1,5 milljarða.

Vonar hið besta eftir sögulega kreppu

Zurab Pololikashvili, forstjóri Ferðamálastofnunar Sameinuðu þjóðanna, segir ný afbrigði og nýjar sóttvarnaaðgerðir í fjölda ríkja sýna glöggt hve ófyrirsjáanleg staðan sé í þessum geira. „Það ríkir söguleg kreppa í ferðaþjónustunni, en á móti kemur að ferðaþjónustan getur náð sér mjög hratt á strik,“ sagði forstjórinn í viðtali við AFP-fréttastofuna. „Ég vona innilega að 2022 verði miklu betra ár en 2021."
 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV