Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Ástæða til að fara varlega vegna ómíkron

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Kristinn Þeyr Magnússon
Sérfræðingur í smitsjúkdómum segir fulla ástæðu til að stíga á hemilinn vegna ómíkron-afbrigðis kórónuveirunnar. Afbrigðið er algjörlega nýtt, breiði mjög hratt úr sér og mögulega sé ekki ráðrúm til að afla gagna og velta vöngum.

Fjöldi landa hefur lokað fyrir fyrir komu ferðalanga frá nokkrum löndum í sunnanverðri Afríku vegna ómíkron-afbrigðisins sem talið er vera jafnvel enn smitnæmara en delta-afbrigðið. Magnús Gottfreðsson, prófessor og sérfræðingur í smitsjúkdómum, var gestur Þóru Arnórsdóttur í Silfrinu í morgun.

„Það er betra að bregðast við og gæta kannski meðalhófs í því heldur en að bíða mjög lengi og afla ganga, einfaldlega vegna þess að þessi ógn sem steðjar að okkur, allri heimsbyggðinni að hún er þess eðlis að hún tvöfaldar útbreiðslu sína kannski á fjögura, fimm daga fresti og á meðan við erum að velta vöngum fer faraldurinn úr böndunum,“ segir Magnús.

Magnús segir raðgreiningar sýna að afbrigðið sé ekki endurbætt útgáfa af delta heldur sé alveg nýtt og virðist hafa flogið lengi undir radar. Mögulega hafi afbrigðið þróast lengi innan sama einstaklings.

„Þetta ómíkron illmennisafbrigði sem þú nefndir það hefur mun fleiri stökkbreytingar heldur en fyrri afbrigði og þær eru á stöðum sem skipta mjög miklu máli fyrir okkur og fyrir varnir líkamans og það er ástæðan fyrir því að stigið er á heimlinn og sagt nú skulum við sjá hvað er í gangi,“ segir Magnús.