Fundurinn var bæði stað- og fjarfundur og stóð í á þriðju klukkustund og þar tóku þeir 600 flokksmenn, sem eiga sæti í flokksráði, afstöðu til stjórnarsáttmálans.
„Stjórnarsáttmálinn var samþykktur með yfirgnæfandi meirihluta,“ sagði Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins í Valhöll eftir fundinn. „Næstum öllum atkvæðum, held ég.“
Það er talað um róttækar breytingar; græna byltingu - það er talað um stjórnarráð 21. aldarinnar. „Við lifum á tímum breytinga og við höfum gefið okkur tíma til að velta þeirri spurningu fyrir okkur hvort stjórnarráðið endurspegli þær breytingar sem hafa orðið í samfélaginu og eru framundan.“
Hvað með stóru málin; hálendisþjóðgarð, heilbrigðismálin, loftslagsmálin, rammaáætlun? Og hvað með skatta - hækka þeir eða lækka? „Allt eru þetta mál sem við ræðum í stjórnarsáttmálanum. Við höfum ekkert verið að boða skattahækkanir. En svigrúm til skattalækkana þarf að meta til að styðja við stöðugleika og frið á vinnumarkaði.“
Sjá einnig: Áhersla á loftslagsmál, heilbrigðismál og vinnumarkað
Verður Sjálfstæðisflokkurinn með fimm ráðuneyti í nýrri ríkisstjórn? „Já, við höfum verið að vinna út frá því.“ Eru það fjármálaráðuneyti, utanríkisráðuneyti og dómsmálaráðuneyti og að flokkurinn fari fyrir tveimur nýjum ráðuneytum til viðbótar- sem verða loftslags og orkumála- og iðnaðar- og hugverkaráðuneyti? „Þetta er eitthvað sem ég vil ræða á morgun.“
Verða konur í meirihluta ráðherraliðs Sjálfstæðisflokksins? „Það er ekki ákveðið.“