Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Framsókn fær heilbrigðisráðuneytið

27.11.2021 - 16:43
Mynd með færslu
 Mynd: Birgir Þór Harðarson - RÚV
Leiðtogar stjórnarflokkanna eru enn á fundum að kynna flokksmönnum stjórnarsáttmálann. Samkvæmt heimildum fréttastofu mun heilbrigðisráðuneytið koma í hlut Framsóknarflokksins og umhverfisráðuneytið fer til Sjálfstæðisflokksins.

Áhersla nýrrar ríkisstjórnar verður meðal annars á loftslagsmál og vinnumarkaðinn. Sérstök áhersla verður einnig lögð á menntamál en fréttastofa hefur ekki fengið staðfest hvaða ráðherra verði yfir þeim málaflokki. 

Flókinn ráðherrakapall

Ráðherrar í nýrri ríkisstjórn verða tólf. Fimm koma úr röðum Sjálfstæðisflokks, fjórir úr Framsóknarflokki og þrír frá Vinstri grænum. Ráðherralistinn verður kynntur á þingflokksfundum í fyrramálið. Líklegast þykir að Willum Þór Þórsson bætist við sem ráðherra Framsóknarflokksins en hann gæti farið fyrir nýju ráðuneyti sem verður til við skiptingu málaflokka úr menntamálaráðuneytinu. Þetta ráðuneyti færi með málefni efri skólastiga, íþrótta og nýsköpunar. Ráðherrar Vinstri grænna verða líklega áfram en færast milli ráðherraembætta. Svipaða sögu er að segja af ráðherrum Sjálfstæðisflokks. Þar fer Kristján Þór Júlíusson úr sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu og líklegast þykir að Guðrún Hafsteinsdóttir, oddviti úr Suðurkjördæmi, komi í hans stað en fréttastofu er ekki kunnugt um hvert ráðuneytið verður. 

Ný mannréttindastofnun

Ný stjórn stefnir meðal annars að því, samkvæmt heimildum fréttastofu, að setja á fót nýja mannréttindastofnun. Kosningalög verða endurskoðuð með tilliti til stjórnarskrárbreytinga. Umsóknarferli um dvalarleyfi verður einfaldað, aðgerðir gegn kynbundnu ofbeldi efldar og stefnt er að því að auka gegnsæi hjá stærstu sjávarútvegsfyrirtækjunum og nefnd komið á fót til að meta ávinning fiskveiðistjórnunarkerfisins. 

Ný stjórn kynnt um hádegi á morgun

Talið er fullvíst að formennirnir verði áfram í sínum ráðuneytum og að ráðuneyti Sigurðar Inga Jóhannssonar bæti við sig fleiri málaflokkum. Síðan er viðbúið að einhvers konar hringekja fari af stað þar sem flestir ráðherranna skipti um ráðuneyti. Fréttastofa hefur ekki fengið staðfest hverjir fái ráðherrastóla en nýja stjórnin verður kynnt formlega á morgun. Búist er við fréttamannafundi fljótlega eftir hádegi og svo verður ríkisráðsfundur á Bessastöðum þar sem stjórnin tekur formlega við.

 

johannav's picture
Jóhanna Vigdís Hjaltadóttir
Fréttastofa RÚV
Bjarni Pétur Jónsson
Fréttastofa RÚV