Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

61 smitaður í tveimur flugvélum frá Suður-Afríku

27.11.2021 - 09:10
Mynd með færslu
 Mynd: Wikimedia Commons
61 farþegi af 600 sem komu í tveimur flugvélum til Amsterdam í Hollandi í gær frá Suður-Afríku í gær hafa greinst með Covid-19. Ekki er vitað hvort smitin eru af nýja afbrigði veirunnar sem fyrst greindist í Suður-Afríku, en fyrsta smitið í Evrópu greindist í Belgíu í gær. Það var farþegi sem var að koma með flugi frá suðurhluta Afríku.

Aðildarríki Evrópusambandsins samþykktu á neyðarfundi síðdegis í gær ferðabann til sjö afríkuríkja vegna nýja afbrigðis kórónuveirunnar. Öllum flugferðum frá ríkjunum hefur verið eða verður aflýst. Þetta eru Suður-Afríka, Zimbabve, Botswana, Eswatini, Lesótó, Mósambík og Namibía. Heilbrigðisyfirvöld í Suður Afríku gagnrýna þessi viðbrögð og segja þau grimmdarleg og mun harkalegri en efni standi til. Farþegarnir sem komu til Schipol í Amsterdam í gær eru í einangrun á hóteli nærri flugvellinum. Þeir flugu frá Höfðaborg til Amsterdam í gegnum Manchester á Englandi.

Nýja afbrigðið, sem Alþjóðaheilbrigðisstofnunin gaf nafnið Omicron í gær, greindist fyrst á miðvikudaginn. Það hefur nú greinst í fjórum löndum auk Suður-Afríku, Botswana, Belgíu, Hong Kong og Ísrael. Alþjóðaheilbrigðisstofnunin varaði við því í gær að nýja afbrigðið gæti smitast hraðar en önnur milli manna. Fjöldi ríkja hefur bannað flug frá ríkjum í suðurhluta Afríku. Sóttvarnalæknir ræður fólki hér frá ferðalögum til ríkja í suðurhluta Afríku.