Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Viðskiptabankarnir þrír hækka allir vexti

26.11.2021 - 14:39
Mynd með færslu
 Mynd: Samsett mynd - RÚV
Stóru viðskiptabankarnir þrír hafa allir hækkað vexti í þessari viku í kjölfar stýrivaxtahækkunar Seðlabanka Íslands í seinustu viku. Íslandsbanki tilkynnti um vaxtahækkun í dag, en áður höfðu Arion banki og Landsbanki gert slíkt hið sama.

Stýrivextirnir voru hækkaðir í seinustu viku og eru nú tvö prósent. Það er fjórða vaxtahækkunin í röð og voru þeir hækkaðir um hálft prósent.  

Íslandsbanki tilkynnti um hækkunina í dag en hún tekur gildi 1. desember. 

Fastir vextir verðtryggðra húsnæðislána með vaxtaendurskoðun lækka um 0,45 prósentustig og  fastir vextir óverðtryggðra húsnæðislána til þriggja ára hækka um 0,20 prósentustig en fastir vextir óverðtryggðra húsnæðislána til fimm ára haldast óbreyttir.

Breytilegir vextir óverðtryggðra húsnæðislána hækka um 0,20 prósentustig og breytilegir óverðtryggðir kjörvextir hækka um 0,35 prósentustig. Yfirdráttarvextir einstaklinga og fyrirtækja hækka um 0,50 prósentustig. Breytilegir óverðtryggðir innlánsvextir hækka um allt að 0,50 prósentustig eða haldast óbreyttir.

Landsbankinn tilkynnti fyrstur bankanna um hækkun í fyrradag. Hjá Landsbankanum hækka breytilegir vextir á óverðtryggðum íbúðalánum um 0,35 prósentustig. Fastir vextir á óverðtryggðum íbúðalánum til þriggja ára hækka um 0,30 prósentustig og um 0,25 prósentustig á óverðtryggðum íbúðalánum til fimm ára. Vextir á verðtryggðum íbúðalánum, bæði breytilegir og fastir, verða óbreyttir.

Breytilegir vextir á óverðtryggðum íbúðalánum verða 4,20 prósent. Lægstu fastir vextir á óverðtryggðum íbúðalánum verða 4,65 prósent.

Kjörvextir á óverðtryggðum útlánum hækka um 0,35 prósentustig en kjörvextir á verðtryggðum útlánum verða óbreyttir. Breytilegir vextir óverðtryggðra lána vegna bíla- og tækjafjármögnunar hækka um 0,35 prósentustig. Yfirdráttarvextir hækka um 0,50 prósentustig.

Arion tilkynnti um hækkun í gær. Þar hækka óverðtryggðir breytilegir íbúðalánavextir um 0,40 prósentustig og verða 4,29 prósent. Óverðtryggðir fastir þriggja ára íbúðalánavextir hækka um 0,60 prósentustig og verða 5,24 prósent. Verðtryggðir breytilegir íbúðalánavextir lækka um 0,30 prósentustig og verða 2,24 prósent. Verðtryggðir fastir fimm ára íbúðalánavextir lækka um 0,30 prósentustig og verða 2,24 prósent.

Almennir óverðtryggðir kjörvextir hjá Arion banka hækka um 0,35 prósentustig og verða 5,40 prósent. Almennir verðtryggðir kjörvextir lækka um 0,10 prósentustig og verða 3,50 prósent. Breytilegir óverðtryggðir innlánavextir hækka ýmist um allt að 0,50 prósentustig eða haldast óbreyttir en vextir á t.d. veltureikningum haldast óbreyttir.