Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Réttarhöld yfir Kavala halda áfram í Tyrklandi á morgun

Mynd með færslu
 Mynd: YouTube
Réttarhöldum yfir tyrkneska stjórnarandstöðuleiðtoganum Osman Kavala verður fram haldið á morgun föstudag. Sendiherrar tíu Evrópuríkja mótmæltu í síðasta mánuði töfum á málinu og Tyrkland gæti átt yfir höfði sér fyrirtöku hjá Mannréttindadómstóli Evrópu vegna þess.

Kavala hefur setið í gæsluvarðhaldi í fjögur ár sakaður um að hafa fjármagnað andóf gegn stjórnvöldum árið 2013 og aðild að valdaránstilraun hersins árið 2016. Hann hefur ávallt neitað sök. 

Verði hann fundinn sekur á hann yfir höfði sér lífstíðardóm án möguleika á reynslulausn. Kavala verður ekki viðstaddur réttarhöldin en búist er við að Mannréttindadómstóll Evrópu taki brot Tyrklandsstjórnar gegn honum fyrir um komandi mánaðamót. 

Sendiherrar kröfðust tafarlausrar frelsunar

Undir lok október mótmæltu sendiherrar tíu ríkja seinagangi í máli Kavalas og kröfðust tafarlausrar frelsunar hans. Áralangt varðhald hans varpaði skugga á lýðræði og réttarkerfi Tyrklands. 

Recep Tayyip Erdogan forseti hótaði sendiherrunum brottrekstri vegna orða þeirra sem hann kallaði óþolandi afskiptasemi. Málinu lauk með yfirlýsingu nokkurra ríkjanna um að þau virtu ályktun Sameinuðu þjóðanna um að sendiherrar skyldu ekki hafa afskipti af innanríkismálum gistiríkja.  

Þá veitti Evrópuráðið, sem hefur eftirlit með mannréttindum í Evrópu, Tyrklandsstjórn lokaviðvörun um að hlíta niðurstöðu Mannréttindadómstóls Evrópu frá 2019 varðandi frelsun Kavala.

Hefur glatað trúnni á sanngjörn réttarhöld

Tolga Aytore, lögmaður Kavala, segir í samtali við AFP-fréttaveituna að hann hafi farið fram á að vera ekki viðstaddur réttarhöldin. Jafnvel þótt forseti landsins fyrirskipi það muni hann ekki hafa uppi varnir þar sem hann hafi glatað trúnni á að réttarhöldin verði sanngjörn. 

Emma Sinclair-Webb fulltrúi Mannréttindavaktarinnar í Tyrklandi segir útilokað að hvað muni gerast við réttarhöldin. Að réttu ætti að láta Kavala lausan þegar í stað.

Ef ekki geti Tyrklandsstjórn búist við málaferlum vegna réttarskerðingar sem dýpki enn vanda hennar gegn Evrópusambandinu. Ibrahim Kalin, talsmaður Erdogans forseta, kveðst vonast til að Evrópuráðið meti allar aðstæður og virði löggjöf Tyrklands þegar kemur að því að fella úrskurð í málinu.