
Omicron-afbrigðið kemst líklega framhjá ónæmisvörnum
Það hefur greinst í Evrópu. Evrópusambandið hefur bannað ferðalög þangað frá sunnanverðri Afríku þar til áhrif afbrigðisins verða ljós.
Mikil fjölgun smita
Aðal veirufræðingur Suður-Afríku tilkynnti opinberlega um nýja afbrigðið í gær en það er talið standa undir mikilli fjölgun daglegra smita undanfarna daga.
Aðeins fjörutíu og tvö prósent íbúa Suður-Afríku eru fullbólusettir og því óttast vísindamenn áfram hraða útbreiðslu.
Fleiri stökkbreytingar
Stökkbreytingarnar í þessu afbrigði eru tvöfalt fleiri en í delta afbrigðinu. „Gögnin sýna að stökkbreytingarnar geri afbrigðið meira smitandi og mögulega að mótefni virki síður gegn því,“ sagði Susan Hopkins, aðalráðgjafi heilbrigðisöryggisstofnunar Bretlands.
Tekið er þó fram að frekari rannsókna sé þörf. Evrópusambandið brást skjótt við. „Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hefur lagt til við aðildarríki að stíga á neyðarhemilinn og takmarka ferðalög frá sunnanverðri Afríku til að hefta útbreiðslu afbrigðisins,“ sagði Ursula von der Leyen, forseti framkvæmdastjórnarinnar.
Flug bannað
Það þýðir að allt flug verði bannað til Evrópu frá Suður-Afríku, Namibíu, Botsvana, Simbabve, Lesótó og Esvatíní, sem hét áður Svasíland.
Stór hluti Evrópulanda hefur þegar ákveðið að fylgja þessu, og við það eru margir ósáttir.
„Þetta er heimsálfa sem reiðir sig á ferðamennsku og nú eru Boris Johnson og ríkisstjórn hans, og önnur Vesturlönd, að setja takmarkanir á þetta svæði. Mér finnst það ekkert sérstaklega sanngjarnt,“ sagði Callum Perry, Breti búsettur í Suður-Afríku.
Þessar aðgerðir gætu líka komið of seint. Í dag var tilkynnt að afbrigðið hefði greinst í Belgíu fyrir fjórum dögum. Það hefur því þegar borist til Evrópu.
Það tekur nokkrar vikur fyrir vísindamenn að sjá hver áhrifin af þessu nýja afbrigði verða í raun og veru, til dæmis á bólusetningar.
Bóluefnaframleiðandinn Pfizer hyggst gefa sér tvær vikur til að rannsaka hvort bóluefni fyrirtækisins veiti vörn gegn þessu nýja afbrigði.
Ótímabært að grípa til aðgerða
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segir ekki tímabært að grípa til aðgerða hérlendis vegna nýs afbrigðis kórónuveirunnar. Hann vonar að full bólusetning dugi ekki síður á þetta afbrigði en delta afbrigðið.
„Auðvitað erum við alltaf að fylgjast með nýjum afbrigðum, því að það er það sem við höfum verið að tala um, hvort það gætu komið ný afbrigði sem bóluefni geti ekki verndað gegn og þetta gæti verið eitt af því en það eru bara svo, vantar svo mikið af upplýsingum enn þá að ég held að við þurfum bara að taka því rólega,“ segir Þórólfur.
Koma verði í ljós hvort þörf sé á því að herða takmarkanir á landamærunum.